Innlent

Ummerki eftir skotvopn á heimili meints byssumanns

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Átta eru í haldi lögreglu í tengslum við rannsókn málsins. 
Átta eru í haldi lögreglu í tengslum við rannsókn málsins.  Vísir/Vilhelm

Lögregla telur að einn þeirra átta sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna morðsins í Rauðagerði hafi skotið manninn til bana. Allir átta neita sök í málinu. Heimildir fréttastofu herma að ummerki eftir skotvopn hafi fundist á heimili mannsins, eftir að hann var handtekinn á miðvikudag.

Átta karlmenn sæta nú gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn lögreglu á morðinu í Rauðagerði. Mennirnir eru á fertugs- og fimmtugsaldri og koma frá Íslandi, Litháen, Albaníu og Spáni en heimildir fréttastofu herma að allir haldi staðfastlega fram sakleysi sínu.

Gæsluvarðhald yfir litháískum karlmanni var í dag framlengt til miðvikudagsins 24. febrúar en gæsluvarðhald yfir öðrum sakborningum gildir einnig fram á miðja næstu viku. Sá maður hafði aðeins verið hér á landi í örfáar vikur þegar hann var handtekinn og er sagður hafa komið hingað eftir að hafa verið ráðinn til starfa fyrir Íslendinginn sem er í haldi lögreglu.

Rannsóknin er gríðarlega umfangsmikil og hefur lögregla haldlagt að minnsta kosti þrjú ökutæki, farið í húsleit á ríflega tuttugu stöðum, og kallað eftir farsímagögnum út frá símamöstrum til þess að tengja aðila saman, svo fátt eitt sé nefnt, en nær allt embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur að rannsókninni með einum eða öðrum hætti.

Heimildir fréttastofu herma að lögregla telji sig nú þegar hafa haft hendur í hári meints byssumanns eftir að hafa farið í húsleit á heimili hans í fyrradag, þar sem ummerki eftir skotfæri úr sams konar byssu og notuð var á laugardagskvöld, fundust. Vopnið er hins vegar enn ófundið en rannsókn stendur yfir á skothylkjum og byssukúlum sem fundust á vettvangi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×