Innlent

Heilbrigðisráðherra ræddi tillögur Þórólfs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svandís Svavarsdóttir ræðir við blaðamenn að loknum fundi ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í morgun.
Svandís Svavarsdóttir ræðir við blaðamenn að loknum fundi ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í morgun. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin situr á reglulegum þriðjudagsfundi sínum í Ráðherrabústaðnum þar sem til umræðu er meðal annars nýtt minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis þar sem hann leggur til hertar aðgerðir á landamærunum vegna kórónuveirufaraldursins.

Þórólfur skilaði minnisblaðinu til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á sunnudag. Hann hefur ekki viljað gefa upp nákvæmlega í hverju tillögur hans felast en hefur þó einkum sagt þrennt koma til greina.

Í fyrsta lagi mætti skerpa á ýmsum verkferlum og sannreyna upplýsingar sem ferðamenn koma með; hvort þeir gefi upp rétt símanúmer, heimilisfang og svo framvegis.

Í öðru lagi væri hægt að krefja fólk um neikvætt vottorð frá komufarþegum og í þriðja lagi væri síðan hægt að skylda fólk í farsóttarhús ef vafi leikur á því að fólk muni halda sóttkví.

Í minnisblaðinu er ekki að finna neinar tillögur varðandi frekari tilslakanir innanlands en á mánudaginn í síðustu viku tóku síðustu tilslakanir gildi. Þórólfur sagði í gær að berja þyrfti í brestina á landamærunum áður en farið væri í frekari afléttingar innanlands. Þá minnti hann jafnframt á að það tæki viku til tvær vikur fyrir áhrif eða afleiðingar tilslakana að koma fram.

Vísir verður í beinni útsendingu frá Tjarnargötu að fundi loknum og blaðamaður ræðir við Svandísi um tillögur Þórólfs.

Uppfært klukkan 11:42 

Að neðan má sjá viðtal við Svandísi að loknum fundi ríkisstjórnarinnar. Nánar má lesa um málið hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×