Innlent

Fangi dæmdur fyrir hótanir og árás á sam­fanga á Litla-Hrauni

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað í einu eldhúsa fanga á Litla-Hrauni í maí 2019.
Árásin átti sér stað í einu eldhúsa fanga á Litla-Hrauni í maí 2019. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt fanga í tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á samfanga sinn í eldhúsi á Litla-Hrauni og sömuleiðis fyrir að hafa hótað öðrum manni ofbeldi.

Í ákæru kom fram að fanginn hafi í maí 2019 veist að öðrum manni, samfanga, endurtekið ógnað honum með hnífi og því næst kýlt hann ítrekað í andlit með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði og hlaut meðal annars blóðnasir, glóðarauga og mar í andliti.

Þá var ákærði sömuleiðis dæmdur fyrir að hafa hringt í annan mann og hótað honum ofbeldi ef hann myndi ekki hætta öllum samskiptum við ákveðinn einstakling. Hótanirnar fólust í því að „slys myndi verða og að ákærði þekkti aðila sem væru reiðubúnir til þess að brjóta andlit fyrir hann. Þá kvaðst [hann] vita hvar [maðurinn] og nánustu aðstandendur hans byggju.“

Fjórtán sinnum verið fundinn sekur

Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um það sem rakið var í ákæru. Þá viðurkenndi ákærði bótaskyldu sína gagnvart brotaþola en mótmælti þó fjárhæðinni í kröfunni sem nam 1,5 milljónir króna og taldi hana of háa. 

Dómari dæmdi ákærða til greiðslu 500 þúsund króna í miskabætur, auk þess að hann var dæmdur til greiðslu alls sakar- og málskostnaðar.

Í dómnum kemur fram að ákærði hafi fjórtán sinnum verið fundinn sekur um refsivert athæfi, þar af átta sinnum ofbeldisbrot. Hafi hann ítrekað brotið gegn skilorði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.