Felix hefur ljáð fjölmörgum persónum úr Disney teiknimyndum rödd sína. Á Twitter-síðu sinni rifjar hann upp hvaða myndir hann hefur talað inn á og biður fylgjendur sína um hjálp við að fullkomna listann.
Þegar hann var spurður um réttindamál, hver ætti réttinn á talsetningunum svarar Felix svo:
„Disney. Við skrifum undir þannig samninga. Ég fékk t.d. um 100 þúsund í verktakalaun fyrir Lion King sem hefur síðan malað gull fyrir Walt og fjölskyldu.“
Ef upphæðin er umreiknuð til dagsins í dag er um 288 þúsund krónur að ræða.
Disney. Við skrifum undir þannig samninga. Ég fékk td um 100 þúsund í verktakalaun fyrir Lion King sem hefur síðan malað gull fyrir Walt og fjölskyldu
— Felix Bergsson (@FelixBergsson) February 9, 2021
Barist fyrir íslensku tali
Tilefni upprifjunarinnar er umræða um íslenskar talsetningar á Disney+. Leikarinn Jóhannes Haukur vakti athygli á því í síðustu viku að inn á veituna vanti íslenskt mál, þrátt fyrir að teiknimyndir Disney hafi verið þýddar og talsettar á íslensku af mikilli kostgæfni í gegnum tíðina.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sendi nýverið bréf til Bob Chapek, forstjóra Disney, þar sem hún hvatti fyrirtækið til þess að bjóða upp á íslenska talsetningu og texta á streymisveitu sinni Disney+.
Von er á því að fleiri myndir verði aðgengilegar með íslenskri talsetningu og texta á streymisveitunni Disney+ eftir nokkra mánuði. Þetta kemur fram í svari Hans van Rijn, yfirmanns Disney á Norðurlöndunum, við erindi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.