Lífið

„Þessi draumar um það að verða ríkur á því að selja dóp er óraunhæfur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
147429414_3636050713111518_8157619733367859042_o

Í Íslandi í dag síðastliðið vor var sagt frá því hvernig þeir félagar Tolli Morthens og Agnar Bragason höfðu lagt í merkilega vinnu með starfshópi sem félagsmálaráðherra Ásmundur Einar Daðason skipaði til að finna leiðir til að styðja fanga til þátttöku í samfélaginu af lokinni afplánun.

Nú má segja að fyrsti áþreifanlegi ávöxtur þeirrar vinnu hafi litið dagsins ljós þegar nýtt áfangaheimili fyrir fyrrverandi fanga, sem kallað er Batahús, var opnað í Vesturbæ Reykjavíkur.

„Bati er góðgerðafélag sem stofnað var í kringum þetta hús, Batahús, og kemur í kjölfar grasrótarsamtaka og í kjölfar skýrslu sem var gerð í tengslum við málefni fanga. Bæði þegar dómur fellur og þegar þeir ljúka afplánun og koma út í samfélagið,“ segir Vagnbjörg Magnúsdóttir fíknifræðingur.

Vagnbjörg starfar sem fíkniráðgjafi.

„Það sem við erum að gera hérna er að við erum að nálgast þennan málaflokk frá miklu mannlegri sjónarmiðum. Við erum á nálgast þetta út frá því að þarna eru einstaklingar sem þurfa félagslega aðstoð og hjálp. Það erum við að gera hérna með allt öðruvísi hugarfari heldur en við höfum gert allt of lengi. Það er það sem mér finnst fallegt við þetta og líka skynsamlegt fyrir samfélagið,“ segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir að gömlu aðferðirnar virki einfaldlega ekki.

Agnar Bragason forstöðumaður heimilisins segir að tilgangurinn sé að bjóða fyrrverandi föngum upp á húsaskjól gegn vægu verði. Þar verður þeim einnig boðið upp á aðstoð til að vinna gegn fíknivanda og endurteknum afbrotum. Agnar segir að nú geti allir þeir sem sýni fram á einhverja batavinnu inn í fangelsunum sótt um pláss í þessu batahúsi að lokinn afplánun.

„Við mælumst til þess að þeir fagaðilar sem starfi með þessum föngum inni í fangelsunum sendi meðmæli með þeim hingað. Svo erum við með inntökuteymi sem í sitja þrír aðilar og fara yfir þessar umsóknir og taka ákvarðanir um það hverjir koma,“ segir Agnar Bragason en fangarnir þurfa að vera án vímuefna þegar þeir koma inn í Batahúsið.

Einstaklingsmiðað úrræði

Átta herbergi og stúdíóíbúðir eru í Batahúsi sem er einstaklingsmiðað úrræði þar sem skjólstæðingum er boðin heimilisaðstaða til allt að tveggja ára eða eftir atvikum til skemmri tíma. Unnið er með einstaklingum á jafningjagrundvelli út frá hugmyndum um áfallamiðaða nálgun.

„Það er mismunandi hvað hver og einn þarf. Þú getur staðið fram í fyrir því að hafa ekki verið á vinnumarkaði mjög lengi eða ná ekki tökum á fíknivanda og ert kannski að falla og ferð aftur í óæskilega hegðun. Þú ert kannski búin að missa öll tengsl við fólkið þitt eða börnin þín og það þurfum við að takast á við. Þetta verður að vera einstaklingsmiðað,“ segir Vagnbjörg.

Sem fyrr segir er eitt af megin markmiðum Batahúss að skapa aðstæður sem hjálpi einstaklingum að beina sjónum sínum frá neyslu og afbrotum og að sjálfstyrkingu, vinnu, námi og samfélagslegri virkni. Vagnbjörg hefur sem fíknifræðingur mikla reynslu af slíkri vinnu og segir rannsóknir sýna mjög jákvæðar niðurstöður slíkra aðferða.

„Ég hef séð fólk sem margir hafa afskrifað ná undraverðum árangri bara með því t.d. að segja söguna sína, fá speglun á hana og skilja sig betur,“ segir Vagnbjörg.

„Þegar einhver sem á kannski lítið bakland og hefur ítrekað farið í fangelsi og er að losna aftur og kemur út á plan fyrir utan fangelsið og þar bíður einhver díler eftir honum. Leiðin liggur þá til baka í fangelsið. Þess vegna er svo mikilvægt að styðja menn um leið og þeir koma út svo þeir fari einhverja aðra leið. Þeir þekkja jafnvel bara þessa einu leið,“ segir Agnar.

Hitti rétta fólkið

Agnar talar hér af mikilli reynslu en hann var sjálfur á sínum tíma fastur í vítahring neyslu og afbrota sem gerðu hann að margföldum endurkomumanni í íslensk fangelsi. Hann náði hins vegar að snúa blaðinu við þegar hann þáði þá nálgun sem bataakademían býður upp á og hefur hann starfað núna sem fíkniráðgjafi á meðferðarheimili í nokkur ár allt þar til hann var gerður að forstöðumanni þessa úrræðis sem um ræðir hér.

„Ég var bara svo heppinn að hitta rétta fólkið og fólkið sem stendur á bak við þetta í dag. Þau hjálpuðu mér og buðu mér að koma á fund, svett eða hvað það var og hjálpuðu að halda utan um mig. Auðvitað er það góð tilfinning að ná sér út úr þessu og vinna við það að aðstoða aðra að komast út úr þessu,“ segir Agnar sem heldur áfram.

„Ég held ég geti sagt við þá sem eru ungir og eru á þessari braut er að við búum í samfélagið þar sem við komumst ekki áleiðis í lífinu með þessum hætti og þessi draumar um það að verða ríkur á því að selja dóp er óraunhæfur,“ segir Agnar. Hér að neðan má sjá Ísland í dag í heild sinni frá því í gærkvöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×