Innlent

„Enginn samningur, engar dag­setningar og engar flug­vélar“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi á dögunum. Í bakgrunni sést Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi á dögunum. Í bakgrunni sést Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn. Almannavarnir

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir ekkert í hendi varðandi samning við lyfjafyrirtækið Pfizer um að gera hér rannsókn á bólusetningu íslensku þjóðarinnar með bóluefni fyrirtækisins gegn Covid-19.

Hávær orðrómur hefur verið á kreiki undanfarna daga að samningur við Pfizer sé í höfn og að því sé von á mörg hundruð þúsund skömmtum af bóluefninu til landsins svo hægt verði að framkvæma rannsóknina.

„Ég hef bara gaman af þessum sögum öllum. Þetta sýnir að Íslendingar eru góð söguþjóð og sagnaþjóð,“ sagði Þórólfur léttur í bragði í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Hann sagði ekkert nýtt að frétta af mögulegum samningi við Pfizer. Aðspurður hvort fyrirtækið væri að draga lappirnar þar sem Þórólfur hefði sagt í þarsíðustu viku og þeirri síðustu að hann vænti frétta um hvort af rannsókninni yrði sagði hann:

„Jú, ég hef sagt þetta ansi langt að ég hefði búist við því fyrr en það er bara eins og það er. Maður getur ekki meira gert í því, ég bíð bara og sé til hvað kemur út úr því. En á meðan er ekkert nýtt að frétta í sjálfu sér. Það er ekkert í hendi, enginn samningur, engar dagsetningar og engar flugvélar.“

Hann sagði að ákveðið hefði verið í byrjun síðustu viku að funda með Pfizer í þessari viku og enn væri stefnt á það.

Þá væri heldur ekkert nýtt að frétta varðandi fleiri skammta af bóluefnum annarra framleiðenda. Sama plan væri á borðinu og verið hefur og sagði Þórólfur liggja fyrir hversu marga skammta við fáum þar til í lok mars.

Fram kom á upplýsingafundi í liðinni viku að alls kæmu 74 þúsund skammtar af bóluefni til landsins fyrir mánaðamótin mars/apríl.

Hlusta má á viðtalið við Þórólf í Bítinu í heild sinni í spilaranum ofar í fréttinni en það hefst á mínútu 11:12.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×