Innlent

Borgarlína og Sundabraut lifi góðu lífi saman

Birgir Olgeirsson skrifar
Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar.
Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar. Vísir/Sigurjón

Borgarlínan og Sundabraut geta vel þrifist saman að mati forstjóra Vegagerðarinnar. Tillögur að Borgarlínu og Sundabrautinni gera báðar ráð fyrir nýjum brúm, sem myndu þvera Kleppsvík og Elliðaárvog.

Frumdrög að fyrstu lotu Borgarlínunnar voru kynnt í gær. Þar er um að ræða leið sem fer frá Ártúnshöfða, niður í miðbæ, þaðan út í Vatnsmýri, yfir Fossvog út á Kársnes og þaðan í Hamraborg í Kópavogi. Reisa á brú yfir Fossvog og brýr yfir Elliðaárvog sem myndu tengja saman Suðurlandsbraut og Ártúnshöfða. Báðar brýr yrðu einungis fyrir almenningssamöngur.

Sundabrú yrði lengsta brú landsins sem myndi tengjast við núverandi gatnamót Holtavegar og Sæbrautar en sú leið myndi myndi tengja vegfarendur við Kjalarnes. Reiknað er með að brúin muni henta bílum, almenningssamgöngum, hjólandi og gangandi.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir þessar tvær framkvæmdir geta þrifist saman.

„Það er að okkar mati þannig. Samgöngusáttmálinn gengur út á að samhæfa alla samgöngumáta. Það er enginn að tala um að það verði engin bílaumferð, hún mun fara vaxandi ef eitthvað er. En við erum að tala um að koma með raunhæfa valkosti til að hægja á vexti bílaumferð og gera þetta lífvænlegra fyrir alla samgöngumáta,“ segir Bergþóra. 

Reiknað er með miklum vexti höfuðborgarsvæðisins næstu 25 árin. Talið er að íbúum fjölgi hátt í 40 prósent, eða um 70 þúsund og verði þá orðnir tæplega 300.000. Með Borgarlínunni er ætla að draga úr bílaumferð, stytta ferðatíma og að fjölskyldur nýti almenningssamgöngur sem valkost við aðra ferðamáta.

„Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir ört stækkandi höfuðborgarsvæðis að koma með raunhæfan valkost. Ég er ekki að tala niður til þess sem er í dag þegar ég segi það, en á almenningssamöngur á öðrum standardi fyrir fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu án þess að menn þurfi að velja það af einhverri neyð.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.