Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun líklega greina frá næstu skrefum, einhverjum afléttingum aðgerða, hér á landi að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.Vísir/Vilhelm
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra minnisblaði seint í gærkvöldi með tillögum sínum um næstu skref í aðgerðum hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta staðfestir Iðunn Garðarsdóttir aðstoðarmaður ráðherra í samtali við Vísi.
Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að hann ætlaði að leggja til vægar afléttingar á aðgerðum. Núverandi reglugerð gildir til 17. febrúar en í ljósi viðbragða ráðherra við tillögum sóttvarnalæknis til þessa má reikna með því að einhverjar afléttingar verði gerðar fyrr.
Svandís situr nú á reglubundnum fundi ráðherra í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu þar sem tillögur Þórólfs eru vafalítið á dagskrá. Reikna má með því að hún greini í framhaldinu frá viðbrögðum sínum við tillögunum.
Enginn hefur greinst með kórónuveiruna nýju innanlands hér á landi síðustu tvo daga. Átta hafa greinst smitaðir síðustu viku og allir nema einn í sóttkví.
Vísir verður í beinni frá Tjarnargötu að loknum fundi ráðherrana og ræðir við Svandísi um framhaldið. Fundurinn hófst klukkan 9:30 og má reikna með því að honum ljúki fyrir hádegi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er með í smíðum tillögur að „vægum“ tilslökunum á sóttvarnaaðgerðum. Mun hann skila þeim til ráðherra öðru hvoru megin við helgina en vildi ekki tjá sig frekar um þær á upplýsingafundi nú í þessu.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.