Innlent

„Þetta heldur áfram að líta vel út“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Lögreglan

Rögnvaldur Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir stöðuna með tilliti til kórónuveirufaraldursins líta vel út hér á landi, en lítið megi út af bregða.

Einn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær og var í sóttkví. Aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum segir lítið þurfa til að faraldurinn nái sér á skrið.

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá almannavörnum greindist einn á landamærunum, en ekki liggur fyrir hvort viðkomandi var með virkt smit.

„Þetta heldur áfram að líta vel út og náttúrulega sérlega jákvætt að þeir sem eru að greinast eru í sóttkví. En þetta er svo sem líka merki um það að það er enn þá veira þarna úti í samfélaginu og það þarf enn þá að fara varlega,“ segir Rögnvaldur í samtali við fréttastofu.

Hann segir þó að full ástæða sé til að gleðjast yfir stöðunni hér á landi, sem er talsvert betri en víða annars staðar í heiminum. Mikilvægt sé að fólk njóti þess að geta mætt til vinnu, farið út að borða og annars slíks.

„Svo sjáum við til hvernig verður með framhaldið, hvort að sóttvarnalæknir sjái ástæðu til þess að rýmka þetta eitthvað meira. Það verður bara að koma í ljós.“

Fólk dregur sínar eigin ályktanir út frá fréttum

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust í nótt fimmtán hávaðatilkynningar. Rögnvaldur segir þetta merki um að fólk taki fréttum um færri smitaða sem merki um að öruggara sé að koma saman.

„Fólk er greinilega að fylgjast með fréttum og sér þetta náttúrulega, að það eru færri að greinast. Við höfum séð það áður líka í faraldrinum að fólk er að draga sínar eigin ályktanir og koma með sitt eigið hættumat inn í þetta, sem er í sjálfu sér eðlilegt.“

Rögnvaldur segir þó mikilvægt að fólk haldi áfram í heiðri reglur um sóttvarnir og fjarlægðartakmörk. Hann segir að lítið þurfi til að faraldurinn sæki í sig veðrið.

„Við höfum náttúrulega séð það líka oft í faraldrimum þar sem eitt til tvö smit koma af stað bylgju sem tekur drjúgan tíma að ná utan um og þegar byrjað er að létta á takmörkunum eru fleiri að hittast, fleiri undir, og þar af leiðandi geta bylgjurnar orðið stærri. Það er náttúrulega það sem við höfum áhyggjur af,“ segir Rögnvaldur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×