Fótbolti

Ein besta tenniskona heims keypti sér fótboltafélag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naomi Osaka í búningi North Carolina Courage.
Naomi Osaka í búningi North Carolina Courage. Twitter/@@TheNCCourage

Naomi Osaka er nú einn orðin af eigendum af North Carolina Courage liðinu í bandaríska kvennafótboltanum.

Osaka ákvað að kaupa sig inn í eigendahóp félagsins þó ekki sé það opinbert hversu stóran hluta hún á.

North Carolina Courage var stofnað fyrir fjórum árum síðan og keppir í National Women's Soccer League. Félagið varð bandarískur meistari bæði 2018 og 2019. Liðið hefur einnig unnið deildarkeppnina þrisvar sinnum.

Naomi Osaka er bara 23 ára gömul og hefur unnið þrjú risamót á ferlinum. Hún tilkynnti um kaupin á Twitter síðu sinni þar sem mátti sjá hana í búningi North Carolina Courage liðsins.

„Konurnar sem fjárfestu í mér þegar ég var að alast upp gerðu mig að þeirri konu sem ég er í dag,“ skrifaði Naomi Osaka.

„Ég veit ekki hvar ég væri án þeirra,“ bætti hin japanska við.

„Í gegnum minn feril þá hef ég mætt svo mikilli ást frá öðrum íþróttakonum og það er þess vegna sem ég er stolt af því að deila því með ykkur að ég er núna eigandi North Carolina Courage,“ skrifaði Naomi Osaka.

Osaka er að undirbúa sig fyrir keppni á Opna ástralska meistaramótinu. Hún er eins og er í þriðja sæti heimslistans.

Osaka vann Opna ástralska risamótið árið 2019 og þá vann hún Opna bandaríska risamótið bæði 2018 og 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×