Innlent

Opinberir aðilar áforma framkvæmdir upp á 139 milljarða í ár

Heimir Már Pétursson skrifar
Mestu munaði um samdrátt í framkvæmdum Ísavia á síðasta ári. Áætlanir voru uppi um að framkvæma fyrir 21 milljarð en á endanum var framkvæmt fyrir 200 milljónir króna.
Mestu munaði um samdrátt í framkvæmdum Ísavia á síðasta ári. Áætlanir voru uppi um að framkvæma fyrir 21 milljarð en á endanum var framkvæmt fyrir 200 milljónir króna. Vísir/Vilhelm

Framkvæmdir opinberra aðila voru mun minni í fyrra en þeir höfðu boðað á útboðsþingi í upphafi þess árs. Mestu munar um stórfelldan samdrátt í framkvæmdum hjá Ísavia. Reykjavíkurborg stóð hins vegar nokkurn vegin við áform sem gefin voru á útboðsþingi í byrjun síðasta árs.

Árlegt útboðsþing Samtaka iðnaðarins fór fram í morgun þar sem fulltrúar stærstu opinberra aðila kynntu áform sín um framkvæmdir og útboð á þessu ári. Kórónuveirufaraldurinn breytti ýmsum áformum ríkis, sveitarfélaga og stofnanna þeirra í fyrra. Þannig var heildarverðmæti framkvæmda á árinu 2020 um 29 prósentum minna en boðað var á útboðsþingi í upphafi þess árs.

Árni Sigurjónsson formaður Samtaka iðnaðarins segir sláandi hvað framkvæmdir opinberra aðila reyndust mikið minni á síðasta ári en áætlanir gerðu ráð fyrir.Vísir/Vilhelm

Árni Sigurjónsson formaður Samtaka iðnaðarins sagði við setningu útboðsþings að mestu hafi munað um mikinn samdrátt í framkvæmdum Ísavia sem ætlaði að framkvæma fyrir 21 milljarð í fyrran en endaði í 200 milljónum.

„Þá voru framkvæmdir framkvæmdir Vegagerðarinnar á síðasta ári 7,6 milljörðum minni en boðaðar framkvæmdir á útboðsþingi í fyrra. Nefna má að nánast engar framkvæmdir voru á vegum Faxaflóahafna og Orku náttúrunnar á síðasta ári. Þetta er býsna sláandi á tímum mikils samdráttar í efnahagslífinu. Við þreytumst ekki á að minna á að fjárfesting í dag sé hagvöxtur á morgun. Þar spila innviðir landsins lykilhlutverk,“ sagði Árni.

Reykjavíkurborg boðaði framkvæmdir fyrir 19,6 milljarða króna á útboðsþingi í fyrra auk 2,5 milljarða króna í fjárfestingarátak vegna COVID-19. Heildarverðmæti framkvæmda hljóðaði upp á 21,1 milljarð króna sem var einum milljarði minna en áætlanir ársins gerðu ráð fyrir.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir borgina ætla að gefa enn meira í með framkvæmdir á þessu ári en gert var á því síðasta þegar borgin var nokkurn veginn á áætlun meðan flestir drógu úr áætlunum sínum.Vísir/Vilhelm

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vonar að árið í ár verði gríðarstórt í framkvæmdum undir merkjum græna plansins hjá borginni, en samanlagt áætla borgin og stofnanir hennar að fjárfesta fyrir 34,7 milljarða á þessu ári.

„Þar sem við erum að flýta stórum fjárfestingum í grænni framtíð. Grænum innviðum í samgöngum og borginni í heild. Til þess að ýta undir efnahagslega endurreisn og fjárfesta í framtíðar lífsgæðum í borginni,“ sagði Dagur.

Þá stefna fleiri stórir aðilar að aukningu framkvæmda. Þannig stefnir Ísavía á að framkvæma fyrir um 13 milljarðasvo eitthvað sé nefnt. En samanlagt boðuðu opinberir aðilar á útboðsþingi framkvæmdir upp á 139 milljarða á þessu ári.


Tengdar fréttir

Bein út­sending: Út­boðs­þing Sam­taka iðnaðarins

Útboðsþing Samtaka iðnaðarins fer fram í beinu streymi í dag og stendur milli klukkan 9 og 10:30. Á þinginu kynna fulltrúar ellefu opinberra aðila fyrirhugaðar verklegar framkvæmdir á árinu og má því fá gott yfirlit yfir helstu útboð ársins, að því er fram kemur í tilkynningu frá SI.

Hlutafé Isavia aukið vegna rekstrartaps í kreppunni

Gengið var frá 15 milljarða króna hlutafjáraukningu á hluthafafundi Isavia sem haldinn var þann 12. janúar síðastliðinn. Hlutafjáraukningunni er ætlað að mæta rekstrartapi vegna COVID-19.

Vonast eftir aðkomu lífeyrissjóða að Sundabraut

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mun kynna skýrslu um gerð Sundabrautar og hvernig hægt verði að fara í þær framkvæmdir. Þetta sagði Sigurður í Sprengisandi á Bylgjunni í dag þegar hann var spurður um mögulega aðkomu lífeyrissjóða að stórum samgönguframkvæmdum hér á landi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.