Innlent

Þrýstingsfall í flugvél Bláfugls vegna leka við frakthurð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bláfugl er flugfélag sem sinnir fraktflutningum.
Bláfugl er flugfélag sem sinnir fraktflutningum. Bluebird

Þrýstingsfall varð í einni af Boeing-fraktflugvélum flugfélagsins Bláfugls í gærmorgun þegar vélin var á leið frá Dublin til Keflavíkur. Þrýstingsfallið uppgötvaðist þegar vélin var skammt frá Færeyjum.

Var vélinni snúið við og lent í Aberdeen þar sem hún var skoðuð af flugvirkjum. Þrír voru í áhöfn vélarinnar og sakaði þá ekki samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu.

„Þetta er cargo-flugvél með stórri cargo-hurð. Það kom upp leki við cargo-hurðina sem gerði það að verkum að dælur sem dæla lofti inn í vélina höfðu ekki undan að dæla,“ segir Tómas Dagur Helgason, flugrekstrarstjóri Bláfugls í samtali við Vísi.

Hann segir að þrýstingsföll í flugvélum geti gerst snöggt eða hægt. Þetta fall hafi verið hægt.

„Þetta var þannig leki að það hefur lekið allt flugið á meðan þeir eru að klifra,“ segir Tómas.

Lækkuðu flugið nokkuð hratt í tíu þúsund feta hæð

Vélin var komin í 34 þúsund fet þegar viðvörunarkerfi í stjórnkerfinu gerði áhöfn vart um þrýstingsfallið.

Flugið var þá lækkað nokkuð hratt í tíu þúsund feta hæð, en það er sú hæð þar sem það verður enginn súrefnisskortur að sögn Tómas Dags, og samkvæmt verkferlum flugfélagsins og Boeing var vélinni snúið á næsta flugvöll.

Bláfugl var með aðra vél í Aberdeen svo skipt var um vél og áhöfnin flaug áfram til Íslands. Hin vélin var skoðuð af flugvirkjum í Aberdeen og þaðan var síðan flogið til East Midlands í Bretlandi þar sem hún var skoðuð nánar.

Eftir þá skoðun var vélinni svo flogið til Lies í Belgíu í nótt en þar er aðalviðhaldsstöð Bláfugls. Tómas Dagur segir það koma betur í ljós í dag hvað hafi valdið lekanum en trúlegast séu það þéttikantar við hurðina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×