Innlent

Ey­vindur og Jóhannes hæfastir í Endur­upp­töku­dóm

Sylvía Hall skrifar
Lög um Endurupptökudóm tóku gildi 1. desember.
Lög um Endurupptökudóm tóku gildi 1. desember. Getty

Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara hefur komist að þeirri niðurstöðu að Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður séu hæfastir umsækjenda um dómarastöðu við Endurupptökudóm.

Endurupptökudómur er sérdómstóll sem tekur við af endurupptökunefnd, en lög um dómstólinn tóku gildi þann 1. desember síðastliðinn. Fimm dómarar munu sitja í dómnum; einn frá hverju dómstigi og tveir aðrir sem ekki eru embættisdómarar.

Sautján sóttu um embættin en tveir drógu umsóknir sínar síðar til baka.

Á eftir Eyvindi og Jóhannesi koma jafn settir Árni Vilhjálmsson, Eiríkur Elís Þorláksson, Reimar Pétursson og Stefán Geir Þórisson. Eru þeir því metnir hæfastir til að gegna embætti varadómenda við dóminn.

Eyvindur hefur verið prófessor við lagadeild Háskóla Íslands frá árinu 2013 og að mestu leyti helgað sig kennslu- og fræðistörfum, að því er fram kemur í umsögn nefndarinnar. Þá var litið til þess að hann hefur ritað fjölda ritrýndra greina og reita á sviði lögfræði, þar á meðal nokkur sem teljast til grundvallarrita á því sviði.

Jóhannes hefur verið sjálfstætt starfandi lögmaður í 26 ár og þótti því standa fremstur meðal umsækjanda, ásamt þeim Reimari og Stefáni Geir, að því er varðar reynslu af lögmanns- og málflutningsstörfum.

Jóhannes og Eyvindur þóttu jafnframt hafa mesta reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar, og þótti Jóhannes hafa sýnt fram á ótvíræða hæfni á fræðilegum vettvangi í fyrri störfum þrátt fyrir að vera ekki með framhaldspróf í lögfræði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.