Ljóst er að fólkið sem býr í þeim níu húsum sem þurfti að yfirgefa heimili sín í gær fær ekki að snúa aftur, sem stendur. Athugið að ljósmyndin er ekki nýleg.Vísir
Ástandið er óbreytt á Norðurlandi hvað snjóflóðahættu varðar og því mun rýming níu húsa á Siglufirði vara áfram, í það minnsta um stundarsakir.
Þetta var ákveðið eftir stöðufund með heimamönnum á Siglufirði, Veðurstofunni og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Snjóathugunarmenn Veðurstofunnar hófu athugun á svæðinu strax við birtingu. Harpa Grímsdóttir, hópstjóri ofanflóðavöktunar, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að enn sem komið er sé ekki vitað af neinum flóðum síðan í gær en staðan verður skoðuð og metin í allan dag og þá notast við dróna til að ná betri yfirsýn.
Fyrirhugað er að halda næsta stöðufund kl. 16:00 í dag með sömu aðilum og endurmeta stöðuna. Tilkynning verður send í kjölfar fundarins.
Veðurstofunni hafa enn ekki borist nýjar tilkynningar um að ný snjóflóð hafi fallið í Siglufirði eða annars staðar á Tröllaskaga. Beðið er eftir að birti til að hægt sé að taka betur stöðuna, en margir vegir á svæðinu eru sem stendur lokaðir og því ekki útilokað að flóð hafi fallið.
Veðurstofa Íslands hefur hækkað viðbúnaðarstig í hættustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi. Ákveðið hefur verið að rýma svæði sem er syðst á Siglufirði og mun lögregla hafa samband við fólkið sem þarf að yfirgefa heimili sín.
Snjóflóð féll á skíðasvæðinu á Siglufirði, sennilega í morgun. Egill Rögnvaldsson svæðisstjóri skíðasvæðisins segir í samtali við fréttastofu að erfitt sé að átta sig á umfangi flóðsins en mikill skafrenningur er á svæðinu og þurftu menn frá að hverfa.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.