Innlent

Sjúkra­húsið á Ísa­firði komið á hættu­stig vegna Co­vid-19 smits

Eiður Þór Árnason skrifar
Sjúklingurinn sem greindist á Landspítalanum hafði áður verið á sjúkrahúsinu á Ísafirði.
Sjúklingurinn sem greindist á Landspítalanum hafði áður verið á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Vísir/vilhelm

Sjúkrahúsið á Ísafirði er komið á hættustig eftir að sjúklingur sem nú liggur á Landspítala greindist með Covid-19 í gær. Sá hefur á síðustu dögum notið þjónustu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Þrír starfsmenn á sjúkrahúsinu á Ísafirði eru í sóttkví og þrír til viðbótar í úrvinnslusóttkví.

Sýni hafa verið tekin og eru þau á leið suður til greiningar. Fram kemur í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða að viðbragðsstjórn hafi komið saman í morgun og fært sjúkrahúsið á hættustig.  

Greint var frá því í gær að sjúklingur hafi greinst með Covid-19 á blóð- og krabbameinsdeild Landspítala. Nýlega höfðu verið tekin sýni úr sjúklingnum á Ísafirði sem reyndust neikvæð.

Sumir starfsmenn fengið fyrri bólusetningu

„Þessi ákvörðun viðbragðsstjórnar stofnunarinnar var tekin til að gæta fyllsta öryggis. Sjúklingum er ekki hætta búin og öllum alvarlegum tilvikum verður hægt að sinna. Sumir starfsmannanna hafa þegar fengið fyrri bólusetningu og eru þar með komnir með vörn að hluta fyrir veirunni,“ segir í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.  

Að sögn Landspítalans er enginn grunur um smit hjá sjúklingum eða starfsfólki blóð- og krabbameinsdeildar Landspítala þrátt fyrir að sjúklingurinn hafi greinst með Covid-19 í gærkvöldi. Er það vegna þess hversu stutt sjúklingurinn lá á deildinni en hann var lagður inn síðdegis á þriðjudag. Deildinni hefur nú verið lokað en von er á niðurstöðum úr skimun starfsmanna og sjúklinga síðar í dag. 

Sóttkví starfsmanna á sjúkrahúsinu á Ísafirði mun hafa talsverð áhrif á þjónustu rannsóknadeildar, röntgendeildar og skurð- og slysadeildar. Reynist sýni þeirra neikvæð ætti að vera hægt að aflétta hættustiginu þar í kvöld, að sögn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. 

Sjúkrahúsið á Ísafirði á hættustig vegna Covid-smits Viðbragðsstjórn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða kom saman í morgun...

Posted by Heilbrigðisstofnun Vestfjarða on Thursday, January 14, 2021

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Segir smitin ekki dæmi um van­rækslu heldur ár­vekni starfs­fólks

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans og formaður farsóttarnefndar, segir að það taki um sólarhring að átta sig nákvæmlega á stöðunni eftir að smit greindist á blóð- og krabbameinsdeild í gærkvöldi. Hann segir stöðuna býsna góða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.