Innlent

Enginn handtekinn eftir hópslagsmál við Hólagarð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Slagsmálin við Hólagarð á fimmta tímanum í dag.
Slagsmálin við Hólagarð á fimmta tímanum í dag.

Til átaka kom milli ungra karlmanna við verslunarkjarnann Hólagarð í Breiðholti á fimmta tímanum í dag. Stór rúða á útibúi flatbökukeðjunnar Pizzunnar brotnaði í átökunum. Þá mátti heyra ung börn öskra og gráta í bakgrunni þar sem þau fylgdust með átökunum.

Fram kom í dagbók lögreglunnar til fjölmiðla um sexleytið að tilkynnt hefði verið um slagsmál í póstnúmeri 111. Einn aðili hefði verið með minniháttar áverka og málið væri í rannsókn.

Fréttastofu er ekki kunnugt um tildrög átakanna frekar en lögreglu. Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, tjáði Mbl.is í kvöld að þeir sem slógust hefðu verið farnir af vettvangi þegar lögreglu bar að garði. Enginn hefði verið handtekinn.

Slagsmálin náðust að hluta á myndband sem sjá má að neðan. Við vörum viðkvæma við myndbandinu.

Slagsmálin áttu sér stað innan við fjórum klukkustundum eftir stóra lögregluaðgerð í Borgarholtsskóla í Grafarvogi þar sem ungir menn mættu í skólann vopnaðir hafnaboltakylfum og stórum hnífum. Sex voru fluttir á slysadeild en lögregla var enn að átta sig á atburðarásinni og hefði ekki upplýsingar um fjölda grunaðra í því máli síðdegis í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×