Innlent

Biskupsemættið skoðar útfærslur á fermingum í samvinnu við sóttvarnalækni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fermingin er stór stund í lífi margra ungmenna en gera þarf ráðstafanir vegna Covid-19.
Fermingin er stór stund í lífi margra ungmenna en gera þarf ráðstafanir vegna Covid-19. Stöð 2/ Egill

Biskupsembættið vinnur nú að því með sóttvarnalækni að útfæra leiðir til að standa að fermingum í vor. Þetta kemur fram í bréfi sem sitjandi biskup, Solveig Lára Guðmundsdóttir, sendi prestum og öðrum starfsmönnum kirkjunnar í dag.

Í bréfinu er einnig fjallað um þær nýju reglur sem taka gildi á morgun en samkvæmt þeim verður leyfilegur fjöldi við útfarir nú 100 manns. Þá er ítrekað að kirkjulegt starf með börnum á leik- og grunnskólaaldri megi hefjast með þeim takmörkunum sem settar eru í reglugerð um takmörkum á skólastarfi frá 21. desember.

„Nú förum við vonandi að sjá til sólar í þessum efnum og getum hægt og sígandi hafið á ný hið hefðbundna kirkjustarf. Strax núna viljum við horfa til ferminganna, sem hefjast víðast hvar í mars. Samhliða því að senda ykkur þetta bréf, erum við að vinna að því með sóttvarnarlækni að hugað verði sérstaklega að fermingum vorsins, við undirbúning þeirrar reglugerðar sem tekur við af þessari,“ segir í tilkynningunni.

„Stóru fréttirnar í nýju reglugerðinni eru að fjöldi við útfarir má að hámarki vera 100 manns frá og með morgundeginum, 13. janúar. Við ítrekum auðvitað að gætt sé að öllum sóttvörnum við þær viðkvæmu athafnir, 2 m reglu og grímuskyldu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×