Búist er við að veðrið takið að lægja eftir miðnætti en þangað til verður ekkert ferðaveður, segir Páll Ágúst Þórarinsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
„Það er ansi hvasst þarna, 20 til 30 metrar á sekúndu og ofsaveður sem er þarna, 28-32 metrar á sekúndu, sem hefur verið að mælast þarna í morgun og með þessu er snjókoma og 10-12 stiga frost þannig að það er mjög slæmt veður á þessum slóðum,“ segir Páll Ágúst.
Fyrstu útköll bárust björgunarsveitum fyrir klukkan átta í morgun. Á Siglufirði losnaði bátur frá bryggju og á Seyðisfirði hafa rúður sprungið, að sögn Landsbjargar. Þar er átta stiga frost og vætulaust, en áfram er hætta á skriðuföllum. Í Nesskaupsstað hafa björgunarsveitir haft í nægu að snúast en þar er Sveinn Halldór Zoega, sem fer fyrir aðgerðarstjórn björgunarsveitarinnar Gerpis.
„Hér er snarvitlaust veður, hviður rétt yfir 40 metra á sekúndu og mikið sjórok. Og það hafa verið að fara garðkofar, rúður og klæðningar,“ segir Sveinn.
„Við erum búin að vera úti í vinnu síðan um átta í morgun og sumir reyndar lengur. En það eru nokkrir tugir verkefna, misstór.“
Hann segir að vindáttin sé vond en að vonir séu bundnar við að það fari að lægja á næstu klukkustundum. Björgunarsveitin muni standa vaktina þangað til.