Innlent

„Hér er snarvitlaust veður“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Á Seyðisfirði hafa rúður sprungið. 
Á Seyðisfirði hafa rúður sprungið.  Vísir/Vilhelm

Aftakaveður er á Austurlandi og appelsínugular veðurviðvaranir í gildi á öllum austurhelmingi landsins. Bátar hafa losnað frá bryggju, rúður sprungið og þakklæðningar losnað.

Búist er við að veðrið takið að lægja eftir miðnætti en þangað til verður ekkert ferðaveður, segir Páll Ágúst Þórarinsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Það er ansi hvasst þarna, 20 til 30 metrar á sekúndu og ofsaveður sem er þarna, 28-32 metrar á sekúndu, sem hefur verið að mælast þarna í morgun og með þessu er snjókoma og 10-12 stiga frost þannig að það er mjög slæmt veður á þessum slóðum,“ segir Páll Ágúst.

Fyrstu útköll bárust björgunarsveitum fyrir klukkan átta í morgun. Á Siglufirði losnaði bátur frá bryggju og á Seyðisfirði hafa rúður sprungið, að sögn Landsbjargar. Þar er átta stiga frost og vætulaust, en áfram er hætta á skriðuföllum. Í Nesskaupsstað hafa björgunarsveitir haft í nægu að snúast en þar er Sveinn Halldór Zoega, sem fer fyrir aðgerðarstjórn björgunarsveitarinnar Gerpis.

„Hér er snarvitlaust veður, hviður rétt yfir 40 metra á sekúndu og mikið sjórok. Og það hafa verið að fara garðkofar, rúður og klæðningar,“ segir Sveinn. 

„Við erum búin að vera úti í vinnu síðan um átta í morgun og sumir reyndar lengur. En það eru nokkrir tugir verkefna, misstór.“

Hann segir að vindáttin sé vond en að vonir séu bundnar við að það fari að lægja á næstu klukkustundum. Björgunarsveitin muni standa vaktina þangað til.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.