Erlent

Gerðu hróp að Romney á leið til Washington

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mitt Romney hefur verið eyland í Repúblikanaflokknum hvað varðar afstöðu hans til forsetans.
Mitt Romney hefur verið eyland í Repúblikanaflokknum hvað varðar afstöðu hans til forsetans. epa/Michael Reynolds

Stuðningsmenn Donald Trump Bandaríkjaforseta veittust að samflokksbróður hans Mitt Romney, fyrir og í flugi frá Salt Lake City til Washington. Romney er meðal sárafárra repúblikana sem hafa gagnrýnt forsetann fyrir framgöngu hans síðustu misseri.

Í myndskeiðum sem hefur verið dreift víða á samfélagsmiðlum má heyra þegar stuðningsmenn Trump hrópa að öldungadeildarþingmanninum, krefjast þess að hann segi af sér og ásaka hann um að hlusta ekki á kjósendur sína.

Þá sýna önnur myndskeið hvernig stuðningsmenn Trump ráðast gegn Romney fyrir að styðja ekki tilraunir forsetans til að fá úrslitum forsetakosninganna snúið.

„Ég styð Trump forseta í þeim málum þar sem ég er sammála honum,“ svarar Romney konu og biður hana yfirvegað um að setja upp grímu. Konan mótmælir í fyrstu en lætur svo undan.

Spurður segist hann ekki taka undir ásakanir Trump um kosningasvik og vísar til stjórnarskrárinnar. „Ég mun útskýra það þegar þingið kemur saman.“

Romney kaus ekki Trump í kosningunum og var eini öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins sem greiddi atkvæði með ákærum á hendur forsetanum.

Fólk á flugvellinum gerði lítið úr arfleifð Romney og konan kallaði hann „brandara“.

Um borð í vélinni kyrjar lítill hópur: „Svikari, svikari!“

Romney hefur gagnrýnt yfirlýsingar samflokksmanna sinna sem hyggjast freista þess í dag að koma í veg fyrir að þingið staðfesti sigur Joe Biden.

„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér þetta gerast í mesta lýðræðisríki heims,“ tísti hann. „Er það svo að metnaður er meira virði en prinsipp?“ 


Tengdar fréttir

Fátt sem getur komið í veg fyrir staðfestingu úrslitanna

Þingmenn beggja deilda Bandaríkjaþings munu koma saman í dag og staðfesta sigur Joe Bidens í forsetakosningunum í nóvember. Þrátt fyrir mótmæli fjölda þingmanna Repúblikana sem hafa, ásamt Donald Trump, fráfarandi forseta, haldið því fram að sigur Bidens sé mögulega ólögmætur eru litlar sem engar líkur á öðru en að niðurstaðan verði staðfest, þó það gæti dregist til morguns vegna mótmælanna.

Stefnir í fullnaðarsigur Demókrata í Georgíu

Útlit er fyrir að Demókratar hafi tryggt sér meirihluta í bæði fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings auk þess að stjórna Hvíta húsinu. Þó niðurstaða liggi ekki fyrir að fullu í aukakosningum til tveggja sæta Georgíu í öldungadeildinni sem fóru fram í gær, virðist sem Demókratar muni ná báðum sætunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×