Erlent

Afskrifaði yfir áttatíu milljóna skuldir krabbameinsveikra skjólstæðinga

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Omar Atiq rak krabbameinsmeðferðarstöð í Arkansas í hátt í 30 ár.
Omar Atiq rak krabbameinsmeðferðarstöð í Arkansas í hátt í 30 ár. Getty

Krabbameinslæknir í Bandaríkjunum hefur afskrifað hátt í 650.000 dollara skuldir tvö hundruð sjúklinga sinna. Hann tók ákvörðunina eftir að hann komst að því hve margir þeirra ætti í greiðsluerfiðleikum vegna kórónuveirufaraldursins, sem komið hefur afar illa niður á Bandaríkjamönnum.

BBC fjallar um málið og segir frá því að læknirinn, Omar Atiq, hafi lokað krabbameinsmeðferðarstöð sinni í Arkansas-ríki á síðasta ári, eftir að hafa rekið hana í hátt í 30 ár. Um jólin hafi hann sent fjölda skjólstæðinga sinna bréf, þar sem hann tjáði þeim að hann hefði ákveðið að afskrifa skuldir þeirra við stöðina.

„Með tímanum fór ég að átta mig á því að margir áttu í erfiðleikum með að borga. Þannig að ég og konan mín litum á þetta og skoðuðum að afskrifa allar skuldirnar. Við sáum að það var möguleiki og ákváðum bara að gera það,“ hefur BBC eftir Atiq.

Atiq er upprunalega frá Pakistan. Hann stofnaði meðferðarstöðina sína í Pine Bluff í Arkansas árið 1991. Þar gátu skjólstæðingar meðal annars leitað geisla- og lyfjameðferðar.

„Við hugsuðum að það væri enginn betri tími til þess að gera þetta en í miðjum faraldri, þar sem heimilum hefur verið rústað, ásamt lífi margra og lífsviðurværi, ásamt fleiru.“

Hér að neðan má sjá umfjöllun ABC um Atiq.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.