Innlent

Matvælastofnun fylgist með útbreiðslu fuglaflensu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Matvælastofnun álítur ekki þörf fyrir aukinn viðbúnað hér á landi enn sem komið er en um leið og farfuglarnir fara að skila sér aftur til landsins er hugsanlegt að það breytist.
Matvælastofnun álítur ekki þörf fyrir aukinn viðbúnað hér á landi enn sem komið er en um leið og farfuglarnir fara að skila sér aftur til landsins er hugsanlegt að það breytist. Pauline Bernfeld/Unsplash

Fuglaflensa hefur breiðst víða um Evrópu að undanförnu og fylgist Matvælastofnun stöðugt með þróun mála og metur áhættu fyrir Ísland. Í tilkynningu frá stofnuninni eru fuglaeigendur hvattir til að huga ávallt vel að smitvörnum og búa sig undir þann möguleika að skipað verði fyrir um sérstakar smitvarnaráðstafanir.

Í tilkynningu Matvælastofnunar segir að flest fuglaflensutilfelli sem greinst hafa í Evrópu síðustu mánuði séu vegna skæðrar fuglaflensuveiru af gerðinni H5N8. Afbrigðið hafi greinst bæði í villtum fuglum og fuglum í haldi. Villtir fuglar virðist þó hafa meiri þýðingu fyrir útbreiðslu veirunnar.

Ekki þörf á auknum viðbúnaði

„Matvælastofnun álítur ekki þörf fyrir aukinn viðbúnað hér á landi enn sem komið er en um leið og farfuglarnir fara að skila sér aftur til landsins er hugsanlegt að það breytist. Stofnunin vill því minna fuglaeigendur á að gera ráðstafanir til að verja fugla sína fyrir smiti frá villtum fuglum með því að viðhafa ávallt góðar almennar smitvarnir, forðast að hafa nokkuð í umhverfi fuglahúsa sem laðar að villta fugla, gæta þess að fóður og drykkjarvatn sé ekki aðgengilegt villtum fuglum og halda fuglahúsum vel við,“ segir í tilkynningunni.

Fuglaeigendur eru einnig beðnir um að vera vakandi og hafa samband við Matvælastofnun ef þeir verða varir við sjúkdómseinkenni eða aukna dánartíðni hjá fuglum sínum.

Þá er almenningur beðinn um að tilkynna Matvælastofnun ef villtir fuglar finnast dauðir og orsök dauða þeirra er ekki augljós. Hægt er að senda ábendingu hér, á póstfangið mast@mast.is eða í síma 530-4800 á opnunartíma.

„Mikilvægt er að hafa í huga að fólk getur líka smitast af fuglaflensu. Við handfjötlun dauðra fugla er því nauðsynlegt að gæta smitvarna, að minnsta kosti nota grímur og hanska. Þegar um er að ræða smit í hópi fugla þurfa þeir sem vinna að aðgerðum að klæðast fullkomnum hlífðarbúnaði. Það skal þó tekið fram að það afbrigði sem nú geisar í Evrópu hefur hingað til ekki valdið sýkingum í fólki. Engar vísbendingar eru um að fólk geti smitast af neyslu eggja og kjöts.“

Hér má lesa tilkynningu Matvælastofnunar í heild sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×