Innlent

Reyndi að brjótast inn hjá Gil­bert úr­smið

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þjófurinn greip til myndarlegrar gangstéttahellu í von um að brjóta rúðuglerið hjá Gilbert úrsmið. Það gekk ekki betur en svo að sprungur mynduðust í glerinu.
Þjófurinn greip til myndarlegrar gangstéttahellu í von um að brjóta rúðuglerið hjá Gilbert úrsmið. Það gekk ekki betur en svo að sprungur mynduðust í glerinu. Vísir/Tumi

Tilraun var gerð til að brjótast inn í verslun Gilberts úrsmiðs á Laugaveginum á mánudagsmorgunn. Þjófnum gekk ekki betur en svo að hann náði að brjóta rúðuna, sem er skotheld, að hluta áður en þjófavarnakerfið fór í gang og hrakti hann á brott.

Gilbert Ó Guðjónsson, úrsmiður og eigandi verslunarinnar, segir í samtali við fréttastofunni að maðurinn hafi gert tvær tilraunir til að brjóta glerið.

„Hann kom tvisvar. Þetta var hálf sjö að morgni. Það er voðalega skrítið að menn séu að reyna svona á þessum tíma dags. Það er komin hreyfing á borgina. Við horfðum á því í vídeói að hann tók sér einhverja pásu á meðan hjólreiðamaður fór þarna fram hjá og annan mann ganga fram hjá,“ segir Gilbert.

Glerið er ansi sterkt, enda skothelt, og segir Gilbert að keyra þyrfti á glerið til þess að það brotnaði.Vísir/Tumi

„Kerfið fór svo í gang þegar hann kom aftur. Í fyrra skiptið setti hann ekki einu sinni kerfið í gang, það var ekki meiri kraftur í honum en það að kerfið fór ekki í gang. Svo kom hann í seinna skiptið með ágætis gangstéttarhellu sem hann henti í rúðuna og þá kom stærra brot en ekki nóg. Þetta er skothelt gler og þolir ansi mikið,“ segir Gilbert.

Málið er nú til skoðunar hjá lögreglunni en að sögn Gilberts þekkti lögreglufólkið manninn, en hann náðist á mynd í öryggismyndavélum búðarinnar.

Þetta er annað skiptið á árinu sem tilraun hefur verið gerð til að brjótast inn í úrverslun Gilberts. Fyrst var það í september, en Gilbert segir að innbrotum í skartgripa- og úrverslanir á Laugavegi hafi fjölgað á liðnu ári, þau séu um fimmtán eða sextán talsins. Hann telur að rekja megi það til þess að minna líf sé í miðborginni og færri á ferli, sem gefi óprúttnum aðilum tækifæri til þess að athafna sig.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×