Innlent

Rúmur hálfur milljarður aukalega í loftslagsaðgerðir

Kjartan Kjartansson skrifar
Vísir að birkiskógi á Skeiðarársandi árið 2017. Um 75 milljónir króna verða lagðar í aukna skógrækt með birkiplöntum með aukaframlagi ríkisstjórnarinnar til loftslagsmála.
Vísir að birkiskógi á Skeiðarársandi árið 2017. Um 75 milljónir króna verða lagðar í aukna skógrækt með birkiplöntum með aukaframlagi ríkisstjórnarinnar til loftslagsmála. Vísir/Arnar

Meirihluti um 550 milljóna króna aukaframlags til loftslagsmála í sérstöku tímabundnu fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins verður varið til verkefna sem tengjast orkuskiptum. Um 200 milljónir króna verða settar í kolefnisbindingarverkefni.

Af þeim 300 milljónum króna sem fara í orkuskipti fara um 210 milljónir í styrki til að stuðla að frekari rafvæðingu hafna. Þá verður fé lagt í úttekt á ávinningi innlendrar eldsneytisframleiðslu, greiningu á hindrunum og tækifærum í að hraða orkuskiptum bílaflota bílaleiga og rannsókn á möguleikum til orkuskipta í þungaflutningum. Styrkir verða veittir félagasamtökum til rafvæðingar gistiskála sem liggja utan almenna raforkukerfisins.

Á sviði kolefnisbindingar verður mestu fé varið til aukinnar skógræktar með birkiplöntum, alls 75 milljónir. Tuttugu milljónir verða settar í aukna endurheimt votlendis. Ráðist verður í átak í grisjun ungskóga, verkefni landgræðslufélaga verða efld, ráðist verður í tilrauna- og átaksverkefni á Norðurlandi og Suðurnesjum um nýtingu moltu, meðal annars til repju- og skógræktar og uppgræðslu.

Fimmtíu milljónunum króna verður veitt til Loftslagssjóðs til viðbótar í úthlutunarfé hans, samkvæmt tilkynningu ríkisstjórnarinnar í dag.

Fjárveitingarnar eru liður í fjárfestingaátaki sem Alþingi samþykkti í lok mars til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.