Innlent

Átak að takast á við lubba landans

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Það var líf og fjör á hársnyrtistofunni Blondie í dag, fyrsta daginn í nokkrar vikur sem mátti hafa opið.
Það var líf og fjör á hársnyrtistofunni Blondie í dag, fyrsta daginn í nokkrar vikur sem mátti hafa opið. vísir/sigurjón

Hársnyrtistofur fengu að opna aftur í dag. Margir hafa beðið eftir klippingu og var því nóg um að vera áöllum hárgreiðslustofum, þar á meðal á Blondie í Mörkinni.

„Okkur líður eins og það séu jólin, við erum svo spennt,“ segir Harpa Ómarsdóttir á Blondie. Hún hóf störf klukkan 7:30 í morgun og gerir ráð fyrir að vera til 21 í kvöld.

„Það er allt fullbókað næstu tvær vikur og vel það, næst laust eftir Hvítasunnuna. Fólk er að vinna á laugardögum og sunnudögum. Allir sem hringja inn vilja helst fá tíma í gær en skilja alveg stöðuna - en hver og einn er með meiri rót en hinn.“

Harpa Ómarsdóttir, eigandi Blondie, segir að minnsta kosti tveggja vikna bið eftir tíma.vísir/sigurjón

Harpa segir einnig hvern og einn vera lengur í stólnum enda sé talsvert meiri vinna að ráða við lubbann eftir tólf vikur hjá fólki sem kemur vanalega áþriggja til sex vikna fresti í stólinn.

Afþreyingarmöguleikar jukust verulega í dag - söfn borgarinnar opnuðu að nýju og bíóhúsin. Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Myndforms sem rekur Laugarásbíó, segir að strax klukkan tíu í morgun hafi verið búið að kaupa miða á sýningar kvöldsins.

„Við munum hleypa fimmtíu í stóra salinn en færri í litlu salina. Fólk getur því auðveldlega haldið tveggja metra regluna milli hópa,“ segir Geir.

Fjöldi veitingastaða sem var lokað þegar samkomubannið var þrengt fyrir sex vikum voru opnaðir á ný í dag. Í fréttatíma Stöðvar 2 var rætt við eiganda Jómfrúarinnar sem ætlar að hleypa fimmtíu gestum á útisvæðið og fimmtíu gestum á innisvæðið - og segir glasið vera hálffullt enda hlakki til þess að miðborgin lifni við að nýju. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×