Innlent

Grunar að pólskt glæpagengi búi í Reykjanesbæ

Lögreglu grunar að pólskt glæpagengi sé búsett í Reykjanesbæ. Enn er leitað allt að átta manna sem taldir eru viðriðnir hrottafengna árás í Reykjavík á laugardag.

Fjórir menn, sem tóku þátt í árásinni, sitja í gæsluvarðhaldi en þeir voru handtekninr á Reykjanesbraut eftir að lögregla hafði veitt þeim eftirför á Strandarheiði. Níu lögreglubílar og mótorhjól tóku þátt í þeirri aðgerð.

Fram kom í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær að fórnarlömb úr árásinni í Reykjavík segja pólskar glæpaklíkur herja á aðra Pólverja á Íslandi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfesti þetta í samtali við fréttastofu í morgun. Vitað sé um nokkur slík tilfelli, og tilkynnt hafi verið um eitt þeirra í síðustu viku. Hún segir þó líkamsárásarmálið í Keilufellinu enn í rannsókn, of snemmt sé að fullyrða um málavexti.

Sjö karlmenn búa í húsinu í Keilufelli þar sem glæpaklíkan réðst til inngöngu í og hlutu allir áverka á höfði og víðar um líkamann. Tveir handleggsbrotnuðu og einn liggur enn á sjúkrahúsi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru mennirnir sem sitja í gæsluvarðhaldi allir búsettir á Suðurnesjum. Talið er að sex til átta menn til viðbótar hafi tekið þátt í árásinni og er þeirra nú leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×