Erlent

Rússar og Kínverjar undirrita samning um gasviðskipti til 30 ára

Randver Kári Randversson skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti, Alexei Miller, forstjóri Gazprom og Zhou Jiping, yfirmaður CNPC, við undirritun samningsins í Sjanghæ í dag.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti, Alexei Miller, forstjóri Gazprom og Zhou Jiping, yfirmaður CNPC, við undirritun samningsins í Sjanghæ í dag. VÍSIR/AP
Rússar og Kínverjar undirrituðu í dag samning um sölu á rússnesku gasi til Kína. BBC greinir frá þessu.

Hér er um risasamning að ræða um viðskipti milli rússneska gasfyrirtækisins Gazprom og China National Petroleum Corp (CNPC) til næstu 30 ára. Samningurinn felur í sér sölu á um 38 milljörðum rúmmetra af gasi til Kína á hverju ári, frá árinu 2018. Talið er að virði samningsins sé um 400 milljarðar dollara og hækkuðu hlutabréf í Gazprom um 2% við þessi tíðindi.

Samningurinn hefur verið í vinnslu undanfarin 10 ár og hefur helsta deiluefnið í samningaferlinu snúist um söluverð á gasinu, þar sem Kínverjar eru sagðir hafa gengið hart fram í kröfum sínum.

Samningurinn er mikilvægur fyrir bæði ríki, en hann er talinn til marks um að Rússar leggi nú aukna áherslu á að efla samskipti sín við Austurlönd í stað þess að horfa til vesturs. Kína er stærsti einstaki viðskiptaaðili Rússa og stefna ríkin tvö á að tvöfalda viðskipti sín á milli á næstu 10 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×