Innlent

Bréf umboðsmanns kemur Árna ekki á óvart

Árni Mathiesen fjármálaráðherra segir það ekki vera áfellisdóm að Umboðsmaður Alþingis taki skipun hans á Þorsteini Davíðssyni í embætti héraðsdómara til efnislegrar meðferðar. „Ég gerði alltaf ráð fyrir að fá þessar spurningar ef einhver myndi vísa málinu til Umboðsmanns Alþingis," sagði Árni eftir ríkisstjórnarfund í dag.

„Ég mun bara svara því eins samviskusamlega og mögulegt er og gera það eins fljótt og mögulegt er og innan þeirra marka sem hann biður um," segir Árni um spurningarnar. Hann segir ekkert í bréfi Umboðsmanns sem komi eitthvað sérstaklega á óvart. Þær spurningar sem komi fram í bréfinu hafi allar verið hluti af umræðunni. „Þetta er allt eins og maður á von á í svona málum," segir Árni.

Árni skipaði Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara á Norð - Austurlandi og Austurlandi fyrir jól. Fimm sóttu um embættið. Þar af voru þrír taldir mjög vel hæfir, en Þorsteinn hæfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×