Ljóst er að ítalski boltinn verður sýndur á sportstöðvum Stöðvar 2 í vetur en í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í kvöld var greint frá þessu.
Samningurinn gildir til næstu þriggja ára en í tilkynningu frá Sýn segir að þetta séu mikil gleðitíðindi fyrir unnendur ítalska boltans.
Cristiano Ronaldo gekk í raðir Juventus í sumar og við Íslendingar eigum okkar mann í ítalska boltanum en Emil Hallfreðsson leikur með nýliðum Frosinone.
Um helgina hefjast strax útsendingar frá ítalska boltanum en þar verða meðal annars Juventus og AC Milan í eldlínunni.
Alla tilkynningu Sýn má sjá í heild sinni hér að neðan.
Yfirlýsingin í heild sinni:
Sýn hf. hefur náð samkomulagi um að leikir ítölsku 1. deildarinnar, Serie A, verði til sýningar á Stöð 2 Sport næstu þrjú árin. Þetta er mikið gleðiefni fyrir unnendur ítalska boltans, sem hefur verið meðal sterkustu knattspyrnudeilda Evrópu um árabil.
Áhuginn á ítölsku deildinnni hefur verið sívaxandi og ríkir sérstaklega mikil eftirvænting fyrir komandi tímabili þar sem ein besti knattspyrnumaður heims, Cristiano Ronaldo, gekk í raðir Ítalíumeistara Juventus í sumar.
Ítalska deildin er skipuð fjölda sterkum liðum sem eiga sér ríka sögu, bæði heima fyrir og í Evrópukeppnum, en margir af bestu leikmönnum Evrópu leika með liðum á Ítalíu. Stöð 2 Sport mun sýna frá fjölda leikja á komandi tímabili og gera öllu því helsta góð skil. Þess má geta að Emil Hallfreðsson, leikmaður íslenska landsliðsins, hefur spilað á Ítalíu í fjölda ára og gekk í sumar í raðir Frosinone.
Stöð 2 Sport hefur leik í ítalska boltanum um helgina og sýnir beint frá fimm leikjum. Tvær stórviðureignir verða á dagskrá á laugardag er Ítalíumeistarar Juventus taka á móti Lazio og Napoli mætir AC Milan á heimavelli.
Allar upplýsingar um beinar útsendingar verður hægt að nálgast á heimasíðu Stöðvar 2, stod2.is.
Vísir er í eigu Sýnar.
Ítalski boltinn snýr aftur á Stöð 2 Sport
Anton Ingi Leifsson skrifar
