Innlent

Búið að einangra svæðið sem brennur

BBI skrifar
Mynd/Hafþór Gunnarsson
Mynd/Hafþór Gunnarsson
Búið er að grafa heljarmikla rás í landið í Laugardal við Ísafjarðardjúp þar sem sinueldar hafa logað að undanförnu. Rásin er milli 400 og 500 metrar að lengd og um þrír metrar að breidd og á að koma í veg fyrir að eldarnir breiðist meira út en orðið er. Svæðið er nú aflokað af rásinni á eina hlið, vegi á aðra, vatni á þriðju og á á fjórðu.

Engu að síður verður slökkvistarfi haldið áfram á svæðinu. „Við viljum helst slökkva alla elda. Ef það kemur vindur í eldinn er hætt við að hann berist yfir rásina eða veg eða annað. Það munaði mjög litlu í dag að eldurinn kæmist yfir rásina," segir Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri í Súðavík.

Í nótt verða um tíu manns á vakt. Í dag voru aftur á móti um 20 manns við slökkvistörf, sem er meira en áður hefur verið. Fjögur slökkvilið voru á svæðinu, frá Ísafirði, Súðavík, Bolungavík og Hólmavík og notuðu meðal annars 12 tonna haugsugu við slökkvistarfið. „Venjulega höfum við verið að dæla um 800 tonnum á dag á svæðið. Ætli við höfum ekki dælt um 1.500 tonnum síðasta sólarhring," segir Ómar.

Eldur logar í gróðrinum.Mynd/Hafþór Gunnarsson
Ómar segir að mikil glóð sé á svæðinu og slík glóð geti lifað í margar vikur og blossað svo upp aftur. „Þannig við munum eflaust reyna að slökkva þá glóð sem eftir lifir. Það var mjög hvasst í dag en við búumst við því að brátt fari að lægja," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×