Fótbolti

Laug að Benitez til þess að fá samning hjá Liverpool

Anton Ingi Leifsson skrifar
Maxi fagnar marki í aprílmánuði 2012 gegn Blackburn.
Maxi fagnar marki í aprílmánuði 2012 gegn Blackburn. vísir/getty

Maxi Rodriguez sem lék í tvö og hálft ár með Liverpool viðurkenndi í viðtali á Instagram-síðu sinni að hann hafi logið að Rafael Benitez, þáverandi stjóra Liverpool, til þess að fá samning hjá félaginu.

Maxi kom til félagsins frá Atletico Madrid árið 2010. Farið var yfir samninginn á spænsku og það kom síðar í ljós að Maxi kunni ekkert í ensku, þó að hann hafi sagt annað.

„Mér leið vel í Atletico. Ég var fyrirliði og þekkti bæinn en ég hélt varla vatni yfir enska fótboltanum. Rafa sagði við mig að það væri mjög mikiilvægt að allir myndu tala ensku í búningsklefanum,“ sagði Maxi og hélt áfram:

„Hann spurði hvort að ég talaði ensku og ég sagði bara já. Ég vildi auðvitað ekki skemma samninginn. Þegar ég kom til Englands þá var haldinn blaðamannafundur. Rafa sagði að hann myndi byrja og svo myndi ég taka við.“

„Ég greip þá í hann og sagði: Rafa, ég verð að segja þér að ég tala ekki ensku. Ég get ekki einu sinni sagt hæ. Þá svaraði hann: Nei, þú ert tíkarsonur. Við hlógum mikið og svo þurfi ég bara að læra enskuna,“ bætti Maxi við.

Hann endaði á því að spila 73 leiki fyrir Bítlaborgarliðið áður en hann hélt til Argentínu. Þar spilar hann enn með Newll’s Old Boys og er fyrirliði félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×