Innlent

Bjóðast til að malbika í Grafningi fyrir 80% af áætluðum kostnaði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá kaflanum á Grafningsvegi neðri. Þar endar malbikið núna við Hlíðará vestan Bíldsfells en úr því á að bæta í sumar.
Frá kaflanum á Grafningsvegi neðri. Þar endar malbikið núna við Hlíðará vestan Bíldsfells en úr því á að bæta í sumar. Stöð 2/Einar Árnason.

Lægsta boð í endurbyggingu og lagningu bundins slitlags á fimm kílómetra vegarkafla í Grafningi reyndist 80,4 prósent af áætluðum verktakakostnaði. Þetta var eitt þriggja útboða sem opnuð voru hjá Vegagerðinni í dag.

Kaflinn er á Grafningsvegi neðri sunnan Úlfljótsvatns, milli Hlíðarár og Grafningsvegar efri. Verkið skal allt vinnast í sumar og á því að vera að fullu lokið fyrir 1. september, samkvæmt útboðslýsingu.

Lægsta tilboð af þremur, sem bárust, átti Vörubifreiðstjórafélagið Mjölnir á Selfossi, 85,5 milljónir króna, sem var 20,9 milljónum króna undir áætluðum verktakakostnaði upp á 106,4 milljónir króna. Næstlægsta boð átti Suðurtak ehf. á Brjánsstöðum, 108 milljónir króna.

Suðurtak hefur undanfarin tvö ár annast uppbyggingu á tveimur samtals ellefu kílómetra köflum Grafningsvegar milli Nesjavalla og Úlfljótsvatns, sem Stöð 2 fjallaði um í fyrrasumar:

Sjá einnig hér: Bundið slitlag kemur sunnan Þingvallavatns

Vegagerðin fékk einnig tilboð vel undir kostnaðaráætlun í endurbyggingu og lagningu slitlags á 1,6 kílómetra kafla í Andakíl, milli Borgarfjarðarbrautar og Hreppslaugar á Mófellsstaðavegi. Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 15. september í haust en hluti af verkinu er reiðvegur.

Það bárust þó aðeins tvö tilboð. Það lægra átti Þróttur ehf. á Akranesi, 38,6 milljónir króna, sem var 84 prósent af 45,8 milljóna króna áætluðum verktakakostnaði. Borgarverk í Borgarnesi átti hærra boðið, 48,9 milljónir króna.

Þriðja og stærsta útboðið, sem opnað var í dag, er gerð hringtorgs og undirganga við Suðurhóla á Selfossi, á Eyrarbakkavegi. Tvö tilboð bárust, bæði yfir kostnaðaráætlun. Það lægra átti Berg Verktakar ehf. í Reykjavík 181,8 milljónir króna, sem reyndist 111 prósent af áætluðum verktakakostnaði upp á 163 milljónir króna. Hærra boðið átti Borgarverk ehf., 239 milljónir króna, eða 147 prósent af kostnaðaráætlun.

Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Sveitarfélagsins Árborgar og veitufyrirtækja. Í því felst einnig gerð stíga og tenginga við ný undirgöng og færsla og endurnýjun á vatnsveitu-, hitaveitu-, raf-, og fjarskiptalögnum. Verkinu skal að fullu lokið 1. nóvember í ár.


Tengdar fréttir

Verktakar bitust hart um fyrstu flýtiverkin

Lægstu tilboð voru vel undir áætluðum verktakakostnaði í sex útboðsopnunum af átta hjá Vegagerðinni í gær, eða á bilinu 75-90 prósent af áætlun. Í tveimur opnunum reyndust lægstu boð yfir kostnaðaráætlun.

Malbikið lengist í Grafningi í sumar

Vegagerðin hefur boðið út endurbyggingu fimm kílómetra langs kafla í Grafningi sunnan Úlfljótsvatns, milli Hlíðarár og Grafningsvegar efri. Vegarkaflinn verður byggður upp og lagður bundnu slitlagi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.