Innlent

Illan þef leggur langar leiðir

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Sveinn Magnússon er talsmaður sumarhúsaeigenda.
Sveinn Magnússon er talsmaður sumarhúsaeigenda. mynd/ hari.
Sumarhúsaeigendur í Bláskógabyggð eru orðnir langþreyttir á að keyra illa þefjandi heimilissorp marga tugi kílómetra þar sem sveitarfélagið hefur ekki sett niður gáma á svæðinu líkt og því ber skylda til. Kærunefnd um hollustu og mengunarvarnir úrskurðaði í júní 2010 að sumarhúsaeigendur í Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð ættu rétt á urða heimilissorp í námunda við sumarhúsasvæði sín en sveitarfélögin voru á þeim tíma búin að fjarlægja ruslagáma sem þar voru. Nú tveimur árum síðar segir Sveinn Guðmundsson, formaður Landssambands sumarhúsaeigenda, Bláskógabyggð enn ekki hafa framfylgt úrskurðinum.

„Sveitarfélagið er að benda á það að það geti sett þetta í sorpeyðingarstöðvar en þær eru bara tvær sem engan veginn er hægt að nálgast á réttri leið heim til sín," segir Sveinn.

„Það hefur þau áhrif að fólk er að safna þessu í poka og er síðan að fara með sorp í bæinn eftir dvöl um helgi eða hvað í sumarhúsi sínu með bílinn illa þefjandi alla leið í stað þess að eiga rétt á því sem lög og reglur bjóða að geta sett heimilissorpið í gám í nánd við sumarhúsasvæðið."

Sveinn segir ástandið snerta þúsundir manna.

„Í hverri kjarnafjölskyldu eru kringum fjórir, við erum að tala um kannski á annan tug þúsunda manna sem þetta snertir beint og óbeint. Fólk er mjög reitt og vill jafnvel skilja þetta eftir hjá sveitarstjórnarskrifstofunum í Bláskógabyggðinni. Að sjálfsögðu segi ég að það sé ekki hægt, við verðum bara að fara aðrar leiðir með sorpið eins og við erum að gera í dag en það er ekki rétt við eigum ekki að þurfa að gera það."

Hann bendir á að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Umhverfisstofnun hafi verið með málið til meðferðar án þess að nokkuð hafi verið að gert en stofnanirnar geta beitt sveitarfélaginu dagsektum og eða sett niður gáma á kostnað þess.

„Næsta skref erUumboðsmaður alþingis ef ekkert gerist næstu daga því það liggur fyrir að umhverfisstofnun er ákkúrat að gera ekki neitt. Ráðuneytið lofaði að fara í málið en það hefur ekki gert neitt. Við sjáum ekki neinar úrlausnir, hvað við getum í raun og veru gert," segir Sveinn Guðmundsson formaður Landssambands sumarhúsaeigenda




Fleiri fréttir

Sjá meira


×