Innlent

Enginn greinst með veiruna síðasta sólarhringinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þetta er annar veirulausi sólarhringurinn á Íslandi frá upphafi faraldursins.
Þetta er annar veirulausi sólarhringurinn á Íslandi frá upphafi faraldursins. Vísir/vilhelm

Enginn greindist með kórónuveiruna síðasta sólarhringinn, samkvæmt nýuppfærðum tölum á Covid.is. Alls hafa því 1792 greinst með veiruna hér á landi, líkt og í gær. Afar fá sýni virðast þó hafa verið tekin á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í gær, eða 25.

Þetta er í annað sinn frá upphafi faraldursins á Íslandi sem enginn greinist með veiruna á einum sólarhring. 

Þá eru virk smit á landinu nú 158 en voru 174 í gær og 1624 hafa náð bata. Nokkuð fleiri eru í sóttkví nú en í gær, eða 814, og hefur þeim því fjölgað um 119 milli daga. Þá eru þrettán innilagðir á sjúkrahúsi og einn á gjörgæslu, að því er fram kemur á Covid.is.

Vísir greindi frá því fyrr í dag að enginn sem smitast hefur af kórónuveirunni styðst nú við öndunarvél. Það hefur ekki gerst í rúmar fimm vikur, eða frá því að fyrsti kórónuveirusmitaði einstaklingurinn var tengdur við slíkan búnað.

Upplýsingafundur almannavarna vegna veirunnar er á sínum stað klukkan 14 í dag. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Alma D. Möller landlæknir munu þar fara yfir stöðu mála með tilliti til Covid-19 hér landi, ásamt Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala. Fundinum verður streymt í beinni útsendingu á Bylgjunni, sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi, sem og hér á Vísi.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×