Innlent

Að minnsta kosti 20 látnir í árásum talíbana í Afganistan

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi sjálfsmorðsárásar í Kabúl í dag.
Frá vettvangi sjálfsmorðsárásar í Kabúl í dag. Vísir/Getty
Talíbanar myrtu í dag 12 manns sem unnu við að hreinsa jarðsprengjusvæði í Suður-Afganistan. Þá særðu þeir 12 til viðbótar í árásinni en fyrr um daginn létust sjö í sjálfsmorðssprengjuárás í höfuðborginni Kabúl. Þá var einn til viðbótar skotinn til bana í höfuðborginni.

Í kjölfar árásarinnar á jarðsprengjusvæðinu komu hersveitir á vettvang. Þær skutu fjóra talíbana til bana og handtóku þrjá.

Í frétt BBC kemur fram að þeir einstaklingar sem vinna við að hreinsa jarðsprengjur í Afganistan eigi að njóta friðhelgi í átökunum sem geysa í landinu. Þrátt fyrir það verða þeir oft fyrir árásum.

Forseti Afganistan, Ashraf Ghani, segir árásina vera verk óvina Afganistan.

Árásir talíbana í Afganistan hafa aukist í takt við það að viðbúnaður Bandaríkjahers og NATO í landinu hefur minnkað síðustu misserin, en meirihluti erlendra hersveita í landinu mun hafa yfirgefið það innan þriggja vikna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×