Innlent

Blikur á lofti vegna verðbólgu

Blikur eru á lofti í efnahagshorfum þó svo að þær séu um margt góðar, að því er fram kemur í spá Hagdeildar ASÍ um þróun helstu hagstærða á næsta og þarnæsta ári. Hagdeildin sendi frá sér slíka spá í annað sinn í gær en hún byggir á líkani sem deildin hefur þróað á síðustu tveimur árum. Spáin var kynnt á lokadegi ársþings ASÍ í gær, en markmiðið með henni er að lýsa á heildstæðan hátt stöðu og horfum í efnahagsmálum. Í spánni kemur fram að lítið megi út af bera til að hagstjórnarmistökin frá árunum 1999 til 2002 verði endurtekin og stöðugleikanum verði ógnað. Ekki er lagt mat á það hvað gerist ef allt fer á versta veg og kjarasamningum verður sagt upp í lok næsta árs en tekið fram að veruleg hætta sé á slíku. Spá Hagdeildar ASÍ gerir ráð fyrir vaxandi verðbólgu og að árin 2005 og 2006 verði hún um eða yfir efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Við þær aðstæður má ekki mikið út af bera til að forsendur kjarasamninga bresti, en það gæti leitt til endurskoðunar eða jafnvel uppsagnar samninga á næsta ári. Fram kemur að gangi verðbólguspáin eftir skili aukinn kaupmáttur vegna kjarasamninga sér ekki á næsta og þarnæsta ári, en á móti gæti komið aukinn kaupmáttur fólks vegna áforma um skattalækkanir og skipulagsbreytingar á fasteignalánamarkaði. Ársfundi ASÍ lauk í gær en hann stóð í tvo daga. Ekki var mikið um mannabreytingar í stjórn sambandsins, en kjörnefnd gerði samhljóða tillögu til fundarins um að Grétar Þorsteinsson sæti áfram sem forseti ASÍ næstu tvö ár og var hann sjálfkjörinn þar sem enginn annar gaf kost á sér. Grétar var fyrst kjörinn forseti á 38. þingi ASÍ árið 1996 og hefur verið endurkjörinn annað hvert ár síðan þá. Sjálfkjörið var einnig í miðstjórn til næstu tveggja ára. Á meðal miðstjórnarmanna sem kosnir voru á síðasta ársfundi og sitja til 2005 var hins vegar Halldór Björnsson sem lætur nú af störfum. Í hans stað var kosinn Pétur Sigurðsson frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Kosið var á milli Péturs og Georgs Páls Skúlasonar frá Félagi bókagerðarmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×