Innlent

Efast um að „inneignarnótuúrræði“ standist eignaréttarákvæði stjórnarskrár

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Vísir/Þorbjörn Þórðarson

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna segir hið svokallaða „inneignarnótuúrræði“ fyrir ferðaskrifstofur koma illa niður á neytendum og að verið sé að velta vandanum yfir á neytendur sem, margir hverjir, hafi misst lífsviðurværi sitt í heimsfaraldrinum sem nú geisar. Hann telur úrræðið ganga gegn eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Í aðgerðapakkanum sem stjórnvöld kynntu í gær kemur meðal annars fram að „komið verði til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum.“ Breki er afar ósáttur með útspilið.

„Það sem við höfum aðallega áhyggjur af er að þarna er verið að velta lausafjárvanda ferðaskrifstofa yfir á herðar neytendum. Það er ekki að leysa vandann heldur bara að færa hann til. Þá teljum við líka að þetta geti gengið gegn eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar þar sem fókl kaupir ferðina undir þágildandi lögum og reglum með þeirri ábyrgð og þeim skyldum sem því fylgir og það er ekki hægt að breyta lögum eftir á. Það er ekki í anda lýðræðis að lög séu afurvirk eins og þetta frumvarp gengur út á.

Breki telur að stjórnvöld geti bakað sér bótaskyldu nái frumvarpið fram að ganga í þeirri mynd sem það er nú.

„Við erum öll í þessu saman. Við þurfum að takast á við þetta saman en þá þýðir það líka að við eigum ekki að velta vandanum frá einum aðila yfir á annan, það er að segja frá ferðaskrifstofum yfir á neytendur. Við neitendur höfum, mörg hver, misst lífsviðurværi okkar, við erum með skert starfshlutfall og höfum jafnvel misst vinnuna. Við eigum líka við lausafjárvanda að stríða.

Breki mælir með „dönsku leiðinni“ svokölluðu til að leysa vandann.

„Þar sem ferðafyrirtækjum er lánaður peningur til að borga neytendum til baka og svo hafa ferðafyrirtæki tíu ár til að endurgreiða slík lán. Það myndi leysa vandann og auka lausafé í hagkerfinu og örva það. Það væri eitthvað sem væri öllum til góða en ekki bara plástur á svöðusár.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×