Innlent

Saka íslenskan karlmann um morð á Flórída

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglubíll á Flórída. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Lögreglubíll á Flórída. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. Vísir/Getty

Íslenskur karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn og sakaður um morð í Pensacola á Flórída í Bandaríkjunum á mánudag. Maðurinn er sagður hafa skotið gest á heimili hans til bana. Hann er nú vistaður í Escambia-fangelsinu í Pensacola.

Lík fórnarlambsins fannst á aðfaranótt mánudags og var með skotsár á hálsinum, að því er segir í frétt staðarmiðilsins Pensacola News Journal. Fórnarlambið var 32 ára gamall karlmaður sem var gestkomandi.

Íslenski maðurinn, sem er 28 ára gamall, er sagður hafa tilkynnt lögreglu um að fórnarlambið hefði framið sjálfsvíg á aðfaranótt mánudags. Framburður tveggja vitna hafi þó leitt lögreglu að þeirri ályktun að íslenski maðurinn hafi orðið valdur að dauða hans.

Annað vitni haldi því fram að mennirnir tveir hafi rifist fyrir utan heimili þess íslenska. Hann hafi þá tekið upp skotvopn. Maðurinn sem var gestkomandi hafi gengið inn í húsið og sá íslenski á eftir. Skömmu síðar hafi byssuhvellur heyrst. Vitnið fann fórnarlambið látið inni í húsinu eftir að skotið heyrðist.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins segist ekki hafa fengið neina beiðni um aðstoð vegna málsins. Samkvæmt því sem Vísir kemst næst er karlmaðurinn sem var handtekinn og sakaður um morð íslenskur en virðist hafa búið í Bandaríkjunum með íslenskum föður sínum um lengri tíma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×