Innlent

Stjórnarandstaðan segir slegið á útrétta hönd hennar

Heimir Már Pétursson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, eru í framlínunni hjá stjórnarandstöðunni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, eru í framlínunni hjá stjórnarandstöðunni. Vísir/Vilhelm

Helmingur allra framkvæmda sem ráðist verður í það sem eftir lifir árs vegna aðgerða stjórnvalda verða í samgöngum og viðhaldi og endurbótum fasteigna hins opinbera. Stjórnarandstaðan gagnrýnir að ekki hafi verið fallist á neitt af því sem hún lagði til við afgreiðslu mála í gærkvöldi.

Fimm stjórnarfrumvörp varðandi aðgerðir og viðbrögð stjórnvalda við mikilli niðursveiflu í efnahags- og atvinnulífi urðu að lögum í gærkvöldi og þingsályktunartillaga um viðbótarframkvæmdir ríkisins á þeim níu mánuðum sem eftir eru af árinu var sömuleiðis samþykkt. Fé til framkvæmdanna var hækkað úr 15 milljörðum í tæpa 18 milljarða í meðförum þingsins en allar sameiginlegar breytingartillögur stjórnarandstöðunnar sem hefðu tvöfaldað framlögin voru felldar.

Hér má sjá þær breytingar sem meirihluti fjárlaganefndar gerði á framlögum til einstakra framkvæmda í aðgerðum ríkisstjórnarinnar.Vísir/Grafík

Mestu munar um framlög til samgöngumannvirkja upp á 6,5 milljarða og viðhald og endurbætur fasteigna upp á 2,5 milljarða, en samanlagt fá þessir liður 50 prósent af öllu viðbótar framkvæmdafé á árinu.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður Vinstri Grænna segir að ríkisstjórnin muni fylgjast með þróun mála og bæta í framlög til framkvæmda ef þurfa þyki.Vísir/Vilhelm

Bjakey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna fór með rulluna við atkvæðagreiðslur á Alþingi í gærkvöldi sem hefur verið rauði þráðurinn í málflutningi stjórnarflokkanna við afgreiðslu þessarra mála.

„Samgöngumálin fá stóran hlut hér enda um að ræða verkefni sem eru tilbúin og eru um land allt. Gríðarleg innspýting í hagkerfið sem er nauðsynleg en um leið mikilvægt að taka þetta í skrefum og vera viss um að við séumað setja fjármuni þar sem þeir komast fljótt og örugglega í vinnu. Segi það enn og aftur; við erum ekki að ljúka neinu heldur komum til með að fylgjast með því hvernig staðan þróast á næstu vikum og grípum inní ef þurfa þykir,“ sagði Bjarkey Olsen.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins mælti fyrir hönd allra stjórnarandstöðuflokkanna þegar hann sagði ríkisstjórnina ekki vera að gera nóg til að mæta samdrætti í efnhags- og atvinnulífi.vísir/vilhelm

Stjórnarandstaðan varaði ríkisstjórnina við því að gera of lítið nú strax og reyndi að höfða til hennar með vísan í það sem fjármálaráðherra hefur margoft ítrekað; að skynsamlegt sé að gera meira en minna. Enda séu horfur á mun meiri samdrætti í framkvæmdum einkaaðila en ríkisstjórnin geri ráð fyrir.

„Það þarf að grípa inn í nú strax með miklu miera afgerandi hætti en raun ber vitni. Stjórnarandstaðan lagði fram lista af tillögum, ekki óskalista hvers flokks um sig, heldur tillögur sem voru þess eðlis að það væri hægt að ráðast í þær strax. Þær væru til þess fallnar að bæta við tillögur ríkisstjórnarinnar á augljósan hátt. Með aðgerðum sem er brýn þörf á,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og mætli þar fyrir hönd allra stjórnarandstöðuflokkanna.

Fimm frumvörp urðu að lögum og Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu í gærkvöldi um viðbótarframlög til framkvæmda á þessu ári upp á tæpa 18 milljarða króna.Vísir/Frikki

Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar minnti á að atvinnuleysi væri nú þegar komið í fimm prósent og 14 prósent á Suðurnesjum. Þá vildu stjórnarandstöðuflokkarnir, sem samþykktu allar tillögur stjórnarflokkanna, bæta fjármunum í atvinnuskapandi verkefni í græna hagkerfinu og til rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina. Þar væri fjöldi verkefna sem væri hægt að fara í strax og myndu fremur en vegaframkvæmdir og viðhald bygginga skapa störf fyrir konur.

En samkvæmt dekkri sviðsmynd Seðlabankans frá því á miðvikudag í síðustu viku verður atvinnuleysi allt að 7 prósent á þessu ári og hafa margir málsmetandi aðilar fullyrt að sú sviðsmynd sé allt of hógvær. Enda búist við fjöldauppsögnum í dag til viðbótar við þær sem þegar hefur verið tilkynnt um.


Tengdar fréttir

Mikil­væg upp­bygging í þágu heimilis­lausra

Margir hafa réttilega lýst yfir áhyggjum af stöðu heimilislausra á þessum viðsjárverðu tímum. Þeir sem eiga hvergi heima geta ekki fylgt fyrirmælum um að halda sig heima og tilheyra auk þess mörg áhættuhópum sem setja þau í viðkvæma stöðu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×