Innlent

Strætó minnkar akstur vegna faraldurs kórónuveiru

Eiður Þór Árnason skrifar
Sóttkví, heimavinna og samkomubann hafa haft mikil áhrif á notkun Strætó að undanförnu.
Sóttkví, heimavinna og samkomubann hafa haft mikil áhrif á notkun Strætó að undanförnu. Vísir/vilhelm

Stjórnendur Strætó hafa ákveðið að minnka akstur og draga úr þjónustu tímabundið vegna faraldurs kórónuveiru.

Notendum Strætó hefur fækkað mikið að undanförnu og var greint frá því á dögunum að  farþegum hafi að meðaltali fækkað um helming frá vikunni áður. Tekjur Strætó hafa að sama skapi lækkað sambærilega samhliða fækkuninni, samkvæmt upplýsingum frá Strætó.

Frá og með þriðjudeginum 31. mars munu strætisvagnar á höfuðborgarsvæðinu aka samkvæmt laugardagsáætlun á virkum dögum. Aukaferðum verður þó bætt við á morgnana svo akstur hefjist á svipuðum tíma og á venjulegum virkum dögum.

Einnig verður öllum næturakstri úr miðbæ Reykjavíkur hætt frá og með aðfaranótt morgundags. Akstur á laugardögum og sunnudögum verður að öðru leyti óbreyttur, er fram kemur í tilkynningu frá Strætó.

Leið 31 mun aka á hálftíma fresti fyrir og eftir hádegi á virkum dögum. Pöntunarþjónustuleiðirnar 27 og 29 aka samkvæmt hefðbundinni áætlun. Leiðir 16, 22, 33 og 34 hætta öllum akstri.

Þess ber að geta að biðstöðvatöflum á stoppistöðvum hefur ekki verið breytt og er mælt með því að farþegar skoði tíma á heimasíðu Strætó og í appinu. Má nálgast upplýsingar um fyrstu ferðir vagnanna á virkum dögum hér á heimasíðu Strætó.


Tengdar fréttir

Farþegarýmum strætisvagna verður skipt upp

Ákveðið hefur verið að farþegarýmum í strætisvögnum höfuðborgarsvæðið verði skipt upp í tvennt. Sá háttur verður hafður á að borði verður strengdur fyrir fremsta hluta vagnanna til þess að aðskilja svæði bílstjóra vagnsins og svæði farþega.

Vernda bílstjóra Strætó og hleypa inn að aftan

Bílstjórar Strætó munu hætta að hleypa inn í vagnana að framan til að vernda þá gagnvart mögulegu smiti á kórónuveirunni. Stjórn Strætó samþykkti þetta á fundi sínum í hádeginu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×