Innlent

Smit í Firði en opna aftur í Mosfellsbæ

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á fundinum í dag.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á fundinum í dag. júlíus sigurjónsson

Stefnt er að því að opna aftur heilsugæsluna í Mosfellsbæ á föstudag. Hún hefur verið lokuð frá 16. mars eftir að starfsmaður hennar greindist með kórónuveiruna. Þetta kom fram í máli Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Þá sagði hann að heilsugæslan hafi líka skipulagt vinnu sína þannig að sumir eru á starfstöðvum og aðrir heima. Til dæmis hafi komið upp smit í heilsugæslunni Firði þannig að hópurinn sem var í Firði vinnur nú að heiman en hinir í húsi.

Óskar hvatti landsmenn að sama skapi til að takmarka skriffinnsku eftir fremsta megni. Þannig hafi margir beðið um vottorð af ýmsum toga og það hafi aukið álagið á heilsugæsluna mikið. „Við biðlum til atvinnurekenda að biðja síður um veikindavottorð þótt einhver sé fjarri vinnu einn til tvo daga. Það munar um að fækka beiðnunum á meðan verið er að sinna veiku fólki,“ sagði Óskar.

Að auki vildi Óskar ítreka að ástandið á heilsugæslunni, sem og annars staðar í heilbrigðiskerfinu og íslensku þjóðlífi, er tímabundið. Það muni taka tíma að vinda ofan af biðlistum en að það muni takast að lokum. „Engar áhyggjur, við verðum áfram til staðar,“ sagði Óskar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×