Innlent

Gular viðvaranir, rok, slydda og leysingar seinni partinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Búast má við slyddu og rigningu seinni partinn í dag.
Búast má við slyddu og rigningu seinni partinn í dag. Vísir/Vilhelm

Leiðindaveður verður víðast hvar á landinu í dag, vaxandi sunnan- og suðaustanátt og hvassviðri eða stormur síðdegis með talsverðri rigningu í eftirmiðdaginn, en þurrt á Norður- og Norðausturlandi fram á kvöld. 

Gular viðvaranir taka víðast hvar gildi eftir hádegi en búast má við hlýnandi veðri, tveimur til sjö stigum, seinni partinn. Því er ráð að huga að frárennsli og hreinsa frá niðurföllum svo leysingavatn valdi ekki tjóni, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Allir landshlutar nema Suðausturland eru undirlagðir gulum viðvörunum síðdegis og fram á kvöld.Skjáskot/Veðurstofan

Gular viðvaranir byrja að taka gildi klukkan 13 á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði, og taka svo gildi koll af kolli á Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum.

Á þessum stöðum má búast við sunnan- og suðaustanhvassviðri eða stormi, 15-23 m/s, víða með slyddu og síðar talsverðri eða mikilli rigningu.

„Snarpar vindhviður við fjöll. Hækkandi hitastig, aukið afrennsli og vatnavextir í ám og lækjum. Mikilvægt er að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatsntjoń vegna rigningar og leysingavatns. Fólk er hvatt til að sýna aðgát.“

Þá verður einnig vindasamt á morgun, víða suðvestan 13-20 m/s með skúra- eða éljahryðjum en þurrt norðaustantil á landinu.

„Síðan róast veðrið og það kólnar. Áfram má þó búast við éljum sunnan- og vestanlands á þriðjudag og miðvikudag.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×