Innlent

Tryggja að mat­vöru­verslanir og apó­tek haldist opin í hertu sam­komu­banni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá verslun Bónuss.
Frá verslun Bónuss. Vísir/Sigurjón

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknir vilja vekja athygli á því og undirstrika að tryggt verður að matvöruverslanir og apótek haldist opin í hertu samkomubanni. Von er á þrengri reglum þess efnis og verður útfærsla á þeim kynnt bráðlega.

Í færslu á Facebook-síðu almannavarna segir að þrátt fyrir hinar hertu reglur muni matvöruverslanir og apótek geta starfað áfram „með þeim hætti að almenningur hafi greiðan aðgang að öllum nauðsynjum og öðrum vörum.“

Þá er ítrekað að birgðastaða hér á landi sé góð og engin merki um að breyting verði á því.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að hámarksfjöldi þeirra sem mega koma saman verði lækkaður verulega niður úr hundrað í hertum aðgerðum sem ætlað er að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi.

Sóttvarnarlæknir hefur sent minnisblað til heilbrigðisráðherra sem er þar í vinnslu og verður kynnt fyrir ríkisstjórn í dag. Það verður væntanlega gefið út í kvöld og tekur gildi frá miðnætti á mánudag.

Þá munu hertar aðgerðir einnig fela í sér lokanir á stöðum þar sem þjónusta er „einn á einn“ til að mynda hárgreiðslustöðvar. Jafnframt er mjög líklegt að líkamsræktarstöðvum og sundlaugum verði lokað.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×