Innlent

Lögregla ítrekað kölluð út vegna heimasamkvæma

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla sinnti þó fleiri verkefnum en heimapartíum í nótt.
Lögregla sinnti þó fleiri verkefnum en heimapartíum í nótt. Vísir/Vilhelm

Töluvert var um útköll í heimahús vegna samkvæmishávaða í gærkvöldi og í nótt, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Ekki er vikið frekar að einstökum útköllum þess efnis en ætla má að fólk haldi sig frekar heima en kíki út á lífið þessa dagana vegna samkomubanns sem nú gildir vegna kórónuveirunnar.

Þá var tilkynnt um þjófnað úr verslun í miðborginni seint á níunda tímanum í gærkvöldi. Grunaður þjófur var látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Á öðrum tímanum var tilkynnt um eignaspjöll á bensínstöð í miðborginni. Skýrsla var tekin af þeim sem grunaður er um verknaðinn og hann látinn laus.

Um fjörutíu mínútum síðar var tilkynnt um að bifreið hefði verið ekið á ljósastaur í Garðabæ. Ekkert er frekar skráð um málið í dagbók lögreglu. Þá hafði lögregla afskipti af nokkrum ökumönnum á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt sem grunaðir er um brot við akstur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×