Innlent

Gáfu Landspítalanum fimmtán öndunarvélar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Reykjavík vetur
Reykjavík vetur Vísir/Vilhelm

Landspítalanum bárust síðdegis fimmtán öndunarvélar til notkunar á Landspítalanum. Um er  að ræða gjöf sem berst frá Bandaríkjunum að frumkvæði Íslendinga ytra sem vilja ekki láta nafns síns getið að svo stöddu. 

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, segir gjöfina gríðarlega mikilvæga í undirbúningi á spítalanum sem stendur sem allra hæst vegna kórónuveirunnar.

„Þær voru að lenda hjá okkur fyrir nokkrum mínútum. Það er beinlínis verið að opna pakkana,“ segir Anna Sigrún.

26 öndunarvélar eru á gjörgæsludeild Landspítalans fyrir og útboð vegna nýrra öndunarvéla, þrjátíu talsins, stendur yfir. Barátta er að markaðnum eðli máls samkvæmt enda kórónuveirufaraldur um allan heim og heilbrigðisyfirvöld í hörðum slag um tækjabúnað.

Gjöfin inniheldur þrjár öndunarvélar til notkunar á gjörgæslu og tólf sem hægt er að nota á almennum deildum. Þá munu fimm öndunarvélar til notkunar á gjörgæslu bætast við á næstunni. Kærkomin gjöf og gott betur.

Anna Sigrún segir að öndunarvélarnar séu af gerð sem hafi áður verið í notkun á spítalanum. Sem skipti máli og auðveldi allt. Nú sé verið að yfirfara vélarnar og ganga úr skugga um að allir íhlutir séu á sínum stað svo hægt verði að taka þær í notkun þegar þörf krefur.

Hinir gjafmildu, sem eru að stofninum til íslenskir að sögn Önnu Sigrúnar, vilja ekki láta nafns síns getið að svo stöddu. Viðkomandi hafi farið í þetta verkefni að frumkvæði, leitað uppi vélar og fundu. Þær bárust svo í dag.

„Þetta skiptir okkur miklu máli. Við erum ljónheppin!“

Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrstu var talið að allar öndunarvélarnar fimmtán væru fyrir gjörgæslu. Þá liggur nú fyrir að fimm öndunarvélar bætast við á næstunni og stefnir því í heildargjöf upp á átta öndunarvélar fyrir gjörgæslu og tólf til notkunar á almennri deild.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×