Innlent

Samningur undirritaður í kjaradeilu í álverinu í Straumsvík og verkfalli frestað

Kjartan Kjartansson skrifar
Álverið í Straumsvík þar sem verkfallsaðgerðir starfsmanna áttu að hefjast í næstu viku. Þeim hefur nú verið frestað.
Álverið í Straumsvík þar sem verkfallsaðgerðir starfsmanna áttu að hefjast í næstu viku. Þeim hefur nú verið frestað. Vísir/Vilhelm

Fulltrúar starfsmanna ISAL, álversins í Straumsvík, og Samtaka atvinnulífsins skrifuðu undir nýjan kjarasamning í dag. Boðuðum verkfallsaðgerðum sem áttu að hefjast í næstu viku hefur verið frestað um tvær vikur.

Reinhold Richter, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna ISAL, staðfestir að samningar hafi náðst í samtali við Vísi. Um er að ræða sama samning og legið hefur fyrir frá 24. janúar. Rio Tinto, móðurfélag álversins í Straumsvík, veitti stjórnendum þess hér á landi ekki leyfi til að skrifa undir samninginn á þeim tíma.

Fyrstu verkfallsaðgerðir starfsmanna áttu að hefjast þriðjudaginn 24. mars. Þeim hefur nú verið frestað um tvær vikur á meðan starfsmenn greiða atkvæði um samninginn. Atkvæðagreiðslan fer fram dagana 25.- 27. mars og ættu úrslit að liggja fyrir sama dag og henni lýkur.

Fimm stéttarfélög eiga aðild að samningnum: Verkalýðsfélagið Hlíf, VR, Rafiðnaðarsambandið, VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna og FIT – félag iðn- og tæknigreina. Reinhold segir að þau muni vinna kynningarpakka um efni samningsins sameiginlega en þangað til geti hann ekki upplýst um innihald hans. Samningurinn byggi þó á sömu forsendum og þeir sem hafa verið gerðir í kjölfar lífskjarasamningsins.

Á vefsíðu Hlífar kemur fram að samningurinn gildi frá 1. júní 2019 til 31. mars 2021. Samningurinn byggi í öllum meginatriðum á kjarasamningnum sem var gerður í janúar en við hann hafi verið bætt leiðréttingum á ýmsu þar sem laun starfsfólks álversins hafi dregist aftur úr öðrum samningum frá 2015.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum af vefsíðu Hlífar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×