Innlent

Stærðarinnar búr­hval rak á land ná­lægt í­búða­byggð

Eiður Þór Árnason skrifar
Full­vaxn­ir búr­hvalstarfar geta orðið um 20 metr­ar að lengd og 40 til 50 tonn að þyngd.
Full­vaxn­ir búr­hvalstarfar geta orðið um 20 metr­ar að lengd og 40 til 50 tonn að þyngd. Róbert Daníel Jónsson

Stærðarinnar búrhval rak á land á Blönduósi og er hann um tíu metrar að lengd. Greinilegt er að um karlkyns dýr, tarf, er að ræða og liggur hræið nú í fjörunni neðan við íbúðabyggð. 

Róbert Daníel Jónsson, sem er forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar á Blönduósi, náði þessum fallegu myndum af hræinu í dag og telur að nokkur tími sé liðinn frá því að hvalurinn drapst.

Samstarfskona Róberts benti honum á hvalinn sem er staðsettur rétt fyrir neðan heimili hennar. 

Róbert Daníel Jónsson

Ekki er kominn óþefur af dýrinu enn sem komið er sem verða að teljast góðar fréttir fyrir íbúa bæjarins. Róbert telur að kuldasamt veður hafi eflaust hjálpað þeim í því tilliti. 

„Það er sem betur fer ekki farið að ilma af honum þarna upp hlíðina.“

Róbert segir gaman að hugsa til þess að hér áður fyrr hafi svona dýr verið ákveðinn hvalreki í orðsins fyllstu merkingu, annað en nú.

„Í dag er þetta bara kostnaður fyrir sveitarfélagið,“ segir Róbert léttur í bragði. 

Hann segist ekki vera með það á hreinu hvort að búið sé að tilkynna þar til bærum yfirvöldum um dýrið en veit til þess að starfsmenn sveitarfélagsins séu meðvitaðir um málið.

Hér sést vel hversu nálægt mannabyggð búrhvalurinn er. Róbert Daníel Jónsson
Róbert Daníel Jónsson


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.