Innlent

Tuttugu heil­brigðis­starfs­menn og tveir lög­reglu­þjónar í sótt­kví á Húsa­vík

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík. Vísir

Alls eru tuttugu og tveir í sóttkví á Húsavík eftir að hafa umgengist áströlsk hjón sem greindust með kórónuveiruna. Maðurinn lést í gær eftir skyndileg veikindi og reyndist smitaður af veirunni. Um helmingur þeirra sem þurfa að fara í sóttkví hafa fengið inni á hóteli í bænum, Húsavík Cape Hotel.

Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands segir í samtali við Vísi að nær allt fólkið í sóttkvínni sé heilbrigðisstarfsmenn, fyrir utan tvo lögreglumenn. Sóttkvíin hafi byrjað í dag.

„Það er þannig að þeir sem ekki kannski fjölskyldunnar vegna vilja ekki vera í sóttkví heima hjá sér hafa fengið aðstöðu á þessu hóteli. Þeir sem eru í góðri aðstöðu til að vera heima hjá sér eru þar,“ segir Jón Helgi. Ekki er grunur um að neinn úr hópnum sé smitaður af veirunni.

„Þetta er erfitt við að glíma. En við reynum bara að bregðast við þessum aðstæðum og lögum það sem laga þarf eins og hægt er.“

Húsavík Cape Hotel hefur opnað dyr sínar fyrir fólkinu sem getur ekki varið sóttkvínni heima hjá sér.Vísir

Líkt og áður segir greindist eiginkona mannsins sem lést einnig með kórónuveiruna. Fram hefur komið að hún hafi verið sett í einangrun en Jón Helgi segir að staðið hafi til að flytja hana til Reykjavíkur í sóttvarnarhúsið við Rauðarárstíg. Hann veit ekki hvort hún sé þegar komin þangað.

Fram kom á upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar í dag að hjónin hefðu verið á ferðalagi saman hér á landi í um viku áður en maðurinn lést. Smitrakning er nú í gangi varðandi það hvaða leið þau fóru um landið og hvaða lönd þau heimsóttu áður en þau komu hingað.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kvaðst aðspurður ekki hafa upplýsingar um hvort að maðurinn, sem var um fertugt, hafi verið með undirliggjandi sjúkdóma. Þá vildi hann ekki svara því hvaða einkenni maðurinn var með og sagðist ekki telja það viðeigandi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×