Innlent

Ferðamaður sem lést á Húsavík reyndist smitaður af kórónuveirunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Húsavík. Maðurinn var Ástrali á fertugsaldri.
Frá Húsavík. Maðurinn var Ástrali á fertugsaldri. Vísir/Vilhelm

Erlendur ferðamaður sem leitaði til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík vegna alvarlegra veikinda í gær reyndist smitaður af veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sóttvarnalækni og Embætti landlæknis.

Maðurinn lést stuttu eftir komuna á stofnunina. Dánarorsök liggur ekki fyrir en sjúkdómseinkennin voru ekki dæmigerð fyrir COVID-19. Unnið er að því að skera úr um dánarorsökina.

„Margþætt vinna tekur nú við vegna þessa máls, bæði varðandi andlát mannsinns og stuðning við hans nánustu. Þá þarf að styðja við og setja þá heilbrigðisstarfsmenn sem komu að meðferð mannsins í sóttkví, sótthreinsa heilsugæslustöðina ásamt því að tryggja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir Húsvíkinga,“ segir í tilkynningunni.

Öll þessi verkefni séu unnin á vegum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í náinni samvinnu við sóttvarnalækni, landlækni, Rauða krossinn og í samstarfi við aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi eystra og heilbrigðisstofnun Norðurlands.

„Starfsemi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík verður í lágmarki, en eins og áður sagði er allt kapp lag á að tryggja að hægt verði að halda uppi mikilvægri þjónustu við íbúa á starfssvæði hennar og aðra sem kunna að þurfa á þjónustu hennar að halda. Tilkynningar er að vænta um hvernig þjónustu verður hagað.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×