Innlent

Framkvæmdaleyfi vegar um Teigsskóg auglýst

Kristján Már Unnarsson skrifar
Veglína yfir Djúpafjörð, milli Gróness og Hallsteinsness, sýnd með einni brú. Núna er ákveðið að þarna verði tvær brýr.
Veglína yfir Djúpafjörð, milli Gróness og Hallsteinsness, sýnd með einni brú. Núna er ákveðið að þarna verði tvær brýr. Grafík/Vegagerðin.
Reykhólahreppur hefur formlega auglýst framkvæmdaleyfi Vestfjarðavegar milli Bjarkarlundar og Skálaness, með veglínu sem liggur um hinn umdeilda Teigsskóg. Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti umsókn Vegagerðarinnar um leyfið þann 25. febrúar síðastliðinn en setti jafnframt 28 skilyrði, að fenginni umsögnum meðal annars frá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. 

„Með breytingum sem hafa orðið á leið um Teigsskóg og skilmálum sem Reykhólahreppur setur framkvæmdinni telur sveitarstjórn að dregið hafi verið sem kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Ávinningur af framkvæmdinni er hins vegar slíkur að hann réttlæti það rask sem verði á umhverfinu. Ávinningur snýr að hagsmunum íbúa sveitarfélagsins og Vestfjarða, með því að bæta verulega samgöngur og auka umferðaröryggi,“ segir í greinargerð með rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir veitingu leyfisins.

Frá eyðibýlinu Gröf við Þorskafjörð. Ný veglína er núna áformuð við fjallsrætur ofan við sumarhúsið en á fyrri stigum var gert ráð fyrir að vegurinn kæmi fyrir neðan húsið.Mynd/Egill Aðalsteinsson
Skilyrðin, sem Reykhólahreppur setti, fela meðal annars í sér að tvær brýr verði í þverun Djúpafjarðar og að hæð þeirra sé slík að hún skerði ekki möguleika til þangskurðar í Djúpafirði; endurheimta skuli birkiskóg, með birki, í stað þess sem eyðileggst; nota skuli staðargróður eða grenndargróður við uppgræðslu á framkvæmdasvæði; tryggja skuli við efnistöku að lúpína berist ekki inn á vegsvæðið; áningarstaðir eða útskot á veginum verði staðsett fjarri varpstöðum arna; og efnistöku verður hagað þannig að ekki myndist stöðuvötn eða tjarnir í námubotnum. 

Í auglýsingunni er vakin athygli á því að ákvörðun sveitarstjórnar um veitingu framkvæmdaleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar. Leyfið og fylgigögn má nálgast á heimasíðu Reykhólahrepps. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá því í janúar í fyrra þegar meirihluti hreppsnefndar samþykkti að velja Teigsskógarleið:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×