Innlent

Allt að tíu stiga frost í dag

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frostþoka á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi.
Frostþoka á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Vísir/Egill

Í kvöld er útlit fyrir mjög hægan vind víðast hvar á landinu. Það hefur í för með sér að flugeldaryk safnast auðveldlega upp og loftgæði dvína hratt, að því er segir í athugasemd veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands um veðrið á gamlárskvöld.

Annars verður hægviðri víðast hvar um land og bjart með köflum en vestanlands er von á stöku él framan af degi. Í kvöld ætti þó að vera orðið bjart og viðbúið að nýtt ár hefjist með hægri breytilegri átt og bjartviðri að því er segir í athugasemd veðurfræðings. Þó eru einhverjar líkur á þokulofti við sjóinn suðvestan til í kvöld og í nótt.

Frost verður á bilinu núll til tíu stig frá morgni og fram eftir degi. „Þótt veður sé oft fallegt í hægum vindi og köldu lofti þá fylgir því að það verður lítil blöndun í loftinu næst jörðu og því er útlit fyrir að flugeldaryk muni víða safnast upp og loftgæði dvína,“ skrifar veðurfræðingur.

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur varaði við því á Twitter síðu sinni í gærkvöldi að loftgæði myndu minnka hratt af völdum flugeldamengunar. Hún hefur jafnframt hvatt fólk til að styrkja björgunarsveitirnar með öðrum hætti en að kaupa flugelda.

Umhverfisstofnun bendir jafnframt á mengandi áhrif af völdum flugelda á samfélagsmiðlum í gær.

Seint á morgun, nýársdag, er annars búist við vaxandi sunnanátt vestan til á landinu og þykknar upp og hlýnar víða. Dálítil rigning annað kvöld.

Veðurhorfur á landinu samkvæmt vef Veðurstofu Íslands:

Hæg breytileg átt en norðvestan 8-13 m/s austast til hádegis. Víða bjartviðri en skýjað með köflum og stöku él um landið vestanvert framan af degi. Líkur á þokulofti suðvestantil í kvöld. Frost 2 til 13 stig í byggð en allt að 17 stig til fjalla. Vaxandi sunnan- og suðaustanátt vestantil á morgun og hægt hlýnandi veður, 8-15 m/s síðdegis. Þykknar upp með lítilsháttar úrkomu á Vestur- og Suðvesturlandi annað kvöld.

Á laugardag:

Sunnan 8-13 m/s og rigning með köflum sunnan og vestanlands, en hægari vindur og léttskýjað um landið norðan og austanvert. Hiti 1 til 7 stig, mildast syðst.

Á sunnudag:

Suðvestan eða sunnan 8-15 m/s, hvassast við vesturströndina. Rigning eða súld sunnan og vestantil en þurrt að mestu í öðrum landshlutum. Gengur í suðvestan 13-20 með slyddu á Vestfjörðum um kvöldið. Hiti 2 til 8 stig.

Á mánudag:

Suðvestan 8-15 m/s og skúrir eða él vestantil en úrkomulítið um landið austanvert. Hiti um og undir frostmarki.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir fremur hæga suðvestlæga átt með úrkomu á köflum flestum landshlutum. Hiti í kringum frostmark.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir hvassa norðanátt og snjókomu eða él, en bjartviðri syðra. Kalt í veðri.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×